Ísafjörður: framkvæmdir við knatthús hefjast næsta vor

Í minnisblaði Birgis Gunnarssonar, bæjarstjóra um byggingu knatthúss sem hann lagði fyrir bæjarráð Ísafjarðarbæjar segir að  næstu mánuðir verða nýttir til að undirbúa verkið sem best og ef allt gengur eftir ættu framkvæmdir að geta hafist næsta vor og framkvæmdum að verða lokið í haustbyrjun 2021.

Kostnaður 456 m.kr.

Kostnaðaráætlun Verkís gerir ráð fyrir heildarkostnaði við verkið kr. 456 millj. og er þá búið
að taka tillit til endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna vinnu á verkstað, vinnu við grunn m.v. stauraundirstöður, framlagi úr Mannvirkjasjóði KSÍ og fjármagnskostnaði. Áætlunin miðast því við heildarkostnað við fullbúið hús.

Þá segir í minnisblaðinu:

„Undanfarnar vikur hefur verið unnið að undirbúningi byggingu knatthúss og viðræður hafa
verið í gangi við norska fyrirtækið Hugaas Entreprenör AS í Noregi. Komið hefur fram að
ekkert tilboð barst í verkið á sínum tíma og því ekkert því til fyrirstöðu að leita leiða til að
semja um verkið á grundvelli skilmála í útboði.

Verkís hefur komið að málinu og hefur aðkoma þeirra falist í að sannreyna að tilboð Norðmanna sé í samræmi við skilmála útboðs og standist allar þær gæðakröfur sem gerðar eru til byggingarinnar. Niðurstaða Verkís er að það hús sem Norðmenn bjóða uppfylli að öllu leyti þær kröfur sem gerðar eru til hússins.

Verkís hefur einnig yfirfarið hönnun á undirstöðum m.t.t. þess að nauðsynlegt er að reka
niður stauraundirstöður þar sem djúpt er niður á fast á fyrirhugðum byggingarstað. Það er
mat Verkís að ferging myndi ekki gagnast nema á litlum hluta af grunni hússins þannig að
ekki verður hjá því komist að reka niður staura sem undirstöður fyrir húsið. Áætlað er að
niðurrekstur stauranna taki 4-6 vikur.“

Bæjarstjóra var falið að vinna málið áfram.

DEILA