Vegaáætlun: Bara ein jarðgöng næstu 15 árin og aukin skattheimta um jarðgöng

Jarðgöngin á Austurlandi. Mynd: RUV.

Í samþykkt Alþingis um samgönguáætlun næstu 15 ára, frá 2019 – 2034 eru aðeins ein jarðgöng að loknum Dýrafjarðargöngum. Það eru svonefnd Fjarðarheiðargöng, 13,4 km frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar. Áætlaður kostnaður við göngin eru 35 milljarðar króna. En aðeins helmingur kostnaðarins verður greiddur úr ríkissjóði samkvæmt samþykktinni. Hinn helmningurinn verður greiddur með gjaldtöku af umferð um öll önnur jarðgöng á landinu samkvæmt tillögu Samgönguráðherra. Þá er gert ráð fyrir að önnur jarðgöng verði gerð frá Seyðisfirði en til Norðfjarðar þegar lokið er við Fjarðarheiðargöngin. Kostnaður við þau göng er talinn verða aðrir 35 milljarðar króna. Samtals mun því kostað um 70 milljarða að tengja Seyðisfjörð við nærliggjandi byggðarlög.

Samkvæmt hugmyndum ráðherrans verður tekið upp sérstakt veggjald um langt árabil fyrir akstur um Vestfjarðagöng, Bolungavíkurgöng og Dýrafjarðargöng, sem og önnur jarðgöng landsins og eiga tekjurnar að standa undir 50% af kostnaðinum við tengingu Seyðisfjarðar.

Um tekjuöflunina segir í nefndaráliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis að hún styðji þessa framtíðarsýn en ekki sé tímabært að taka afstöðu til útfærslunnar:

„Nefndin styður einnig þá framtíðarsýn að bein framlög úr samgönguáætlun og jarðgangaáætlun standi undir hluta framkvæmdakostnaðar jarðganga, og að gjaldtaka af umferð fjármagni hluta auk þess sem hún greiði fyrir rekstur og viðhald ganganna. Ekki er tímabært að taka afstöðu til frekari útfærslu á þessari fjármögnunaraðferð enda er niðurstaðan háð heildstæðri greiningu á henni.“

DEILA