Tekjur af fiskeldi aukast

Fiskeldi. Myndin er úr safni BB.

Útflutningsverðmæti eldisafurða var 25 milljarðar króna á árinu 2019, sem er 90% aukning frá fyrra ári. Hefur útflutningsverðmæti eldisafurða aldrei verið meira. Aukningin var nokkuð minni á föstu gengi vegna lækkunar á gengi krónunnar, eða sem nemur um 75%. Rúmlega 90% eldisafurða eru flutt út og hefur gengi krónunnar þar með veruleg áhrif á afkomu greinarinnar, líkt og aðrar útflutningsgreinar. Langmesta aukningin varð á útflutningi á eldislaxi, sem ríflega tvöfaldaðist á milli ára í krónum talið.

Útflutningsverðmæti eldisafurða er komið í 11,6 milljarða króna á fyrstu fimm mánuðum ársins. Hefur það aldrei áður verið meira, í krónum talið, á fyrstu fimm mánuðum ársins. Á sama tímabili í fyrra höfðu verið fluttar út eldisafurðir fyrir rúma 10,9 milljarða króna, sem þá var met.

Þetta gerist þrátt fyrir lækkun á afurðaverði erlendis sem aftur má rekja til áhrifa COVID-19.

Á fyrsta fjórðungi ársins hafði útflutningsverðmæti eldisafurða aukist um 21% í erlendri mynt, og er því nokkuð ljóst að farsóttin hefur þurrkað upp þá myndarlegu aukningu sem komin var.

DEILA