Alþingi hefur samþykkt breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir sem m.a. felur í sér að bannað verður að setja tilteknar, algengar einnota vörur úr plasti á markað frá og með 3. júlí 2021.
Meðal vara sem bannað verður að setja á markað eru einnota bómullarpinnar úr plasti, hnífapör, diskar, sogrör, hræripinnar og blöðrustangir.
Þá verða matarílát, drykkjarílát, glös og bollar úr frauðplasti óheimil og ekki verður heimilt að afhenda endurgjaldslaust einnota bolla, glös og matarílát úr öðru plasti sem ætluð eru undir drykki og matvæli til neyslu, líkt og algengt er á skyndibitastöðum.
Undantekningar eru gerðar ef vörur flokkast sem lækningatæki.
Skilyrðislaust bann verður við því að setja vörur á markað sem gerðar eru úr plasti sem er niðurbrjótanlegt með oxun eða svokallað oxó-plast. Vörur úr slíku plasti hafa rutt sér til rúms á markaði síðustu ár, einkum vissar tegundir plastpoka, en eðli þess er að sundrast í öragnir sem eru skaðlegar heilsu og umhverfi og er vaxandi vandi á alþjóðavísu.
Kveðið er á um sérstaka merkingu sem tilteknar einnota plastvörur eiga að bera. Um er að ræða upplýsingar um meðhöndlun vörunnar eftir notkun og þau neikvæðu áhrif sem varan hefur berist hún út í umhverfið. Þær vörur sem greinin mun taka til eru ýmsar tíðavörur, blautþurrkur til heimilis– og einkanota, ýmsar tóbaksvörur og bollar fyrir drykki.
Fáanlegar eru á markaði staðgönguvörur sem eru margnota eða innihalda ekki plast og nota má í stað þeirra vara sem breytingarnar taka til.