Ísafjarðarbær hlýtur jafnlaunavottun

Sigurður M. Harðarson, samræmingarstjóri úttekta hjá iCert, afhendir Birgi Gunnarssyni, bæjarstjóra, viðurkenningu iCert. Með þeim á myndinni eru Ásgerður Þorleifsdóttir, deildarstjóri launa, Baldur Ingi Jónasson, mannauðsstjóri, og Alberta Gullveig Guðbjartsdóttir, deildarstjóri félagsþjónustu, sem sátu í verkefnahópi um vottunina.

Ísafjarðarbær hefur hlotið jafnlaunavottun frá vottunarstofunni iCert, sem er staðfesting þess að jafnlaunakerfi sveitarfélagsins samræmist kröfum jafnlaunastaðalsins, ÍST85:2012. Tilgangur jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og miða að auknu launajafnrétti kynjanna.

Í mannréttindastefnu Ísafjarðarbæjar koma fram markmið tengd jafnréttismálum og er jafnlaunavottunin mikilvægur áfangi í þeirri vegferð. Í nútímasamfélagi er það eðlileg krafa að sömu laun séu greidd fyrir sömu og/eða sambærileg störf þannig að enginn ómálefnalegur launamunur sé til staðar.

Með innleiðingu á jafnlaunakerfi og vottun fást tæki til að taka hlutlægar ákvarðanir og tryggja að þessum markmiðum sé náð.

Með jafnlaunavottuninni hefur Ísafjarðarbær öðlast heimild Jafnréttisstofu að nota jafnlaunamerkið til næstu þriggja ára. Merkið staðfestir að komið hafi verið upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.

DEILA