Verkefnisstjórn fyrir Flateyri fullskipuð

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur gengið frá skipun tveggja stjórnarmanna fyrir hönd Ísafjarðarbæjar í verkefnisstjórn með vísan til samnings um stöðu verkefnastjóra á Flateyri.

Samþykkt var að Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri  og Daníel Jakobsson, formaður bæjarráðs  verði skipaðir fyrir hönd Ísafjarðarbæjar.

Fyrir hönd Vestfjarðastofu hefur verið skipuð Sigríður Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, og fyrir hönd íbúa á Flateyri hafa verið skipuð Guðrún Guðmundsdóttir og Bernharður Guðmundsson.

Verkefnisstjórn kemur sér saman um formennsku.

Ekki var einhugur um afgreiðsluna og Nanný Arna Guðmundsdóttir fulltrúi Í listans studdi ekki tillöguna og lagði fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúi Í-listans í bæjarráði getur ekki samþykkt þessa tilnefningu þar sem hún brýtur í bága við nýsamþykkta mannréttindastefnu Ísafjarðarbæjar, en samkvæmd þriðju grein hennar segir „við skipan í nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélagsins skal þess gætt að hlutfall kynja sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Við tilnefningu skal leitast við að veita öllum tækifæri til þátttöku og mikilvægi fjölbreytni höfð að leiðarljósi.“

DEILA