Laugardaginn 27. júní opnar sýning á verkum Hreins Friðfinnssonar og Sólons Guðmundssonar í sýningaröðinni Ferocious Glitter II í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði.
Ferocious Glitter II er seinni hlutinn í röð tíu tveggja vikna sýninga í Gallerí Úthverfu / Outvert Art Space á Ísafirði. Fyrri hluti seríunnar fór fram sumarið 2019 og þá voru sýnd verk Peter Schmidt, Svövu Skúladóttur, Ingólfs Arnarssonar, Karin Sander og Rögnu Róbertsdóttur. Sýningarnar tengjast allar Ísafirði og menningar- og listasögu bæjarins. Sýningarstjóri er Gavin Morrison. Hraðar skiptingar sýninganna eru að hluta til svar við árstíðabundnum sviftingum á norlægum slóðum þar sem sumarkoman með vaxandi dagsbirtu glæðir íbúana auknum krafti og sköpunargleði. Þessi orka er endurspegluð í örum skiptingum í bland við sterkan fókus sýningarrýmisins og miðar að því að skapa kraftmiklar aðstæður sem auðvelda skoðun sagna og samtímaverka í návígi en með víðtækari vitund um tengsl bæjarins við sköpunina sem hann hefur alið.
Þessi áttunda sýning í Ferocious Glitter röðinni – og sú þriðja á þessu ári – kannar tengslin milli listamannsins Hreins Friðfinnssonar og Ísfirðingsins Sólons Guðmundssonar (1860-1931). Þórbergur Þórðarson lýsir Sóloni sem aðalsmanni í bók sinni Íslenskum aðli. Sólon bjó í Slunkaríki og eftri árum byggði hann sér annað hús sem var úthverft. Hann setti veggfóður á veggi hússins úti og útskýrði þannig: ,,Veggfóður er til skrauts, elska, og þess vegan sjálfsagt að hafa það þar, sem flestir hafa gaman af því.’’ Árið 1974 gerði Hreinn Friðfinnsson skúlptúr með tilvísun í Slunkaríki Sólons sem var lítið hús á afviknum stað, veggfóður að utan og bárujárn að innan. Fyrir Hreini þýddi þessi umsnúningur að allur heimurinn væri nú inni í húsinu. Hreinn gerði síðan annað hús fyrir franskan skúlptúrgarð árið 2008 og sneri þá húsinu aftur við og hafði bárujárnið að utan. Þriðja og fjórða húsið voru búin til 2011 og 2017, í þeim eru veggir ov innréttingar horfnar, húsið geymir ekki lengur heiminn.
Á sýningunni er ljósmyndir af húsi Sólons og vatnslitamyndir sem gerðar hafa verið af því. Einnig er líkan af húsaskúlptúr Hreins og ljósmyndir af öllum fjórum húsunum.
Hreinn Friðfinnsson er fæddur árið 1943 og ólst upp á Bæ í Dölum en hefur búið í Amsterdam frá árinu 1971. Hann átti stóran þátt í þróun avant-garde listar á Íslandi og er einn af stofnendum SÚM 1965. Nýlegar einkasýningar hans eru m.a.: Centre d´Art Contemporain í Genf 2019; KW Institute for contemporary Art, Berlín 2019; Kunstverein Amsterdam 2015; Nýlistasafnið 2014; Malmö Konsthall 2008; Serpentine Gallery London 2007; Listasafn Reykjavíkur 2007 og Gallerí Slunkaríki Ísafirði 2005.
Hreinn tók þátt í Skulptur Projekte Münster 2017 og þrítugasta tvíæringnum í Sao Paulo 2012. Árið 1993 var hann fulltrúi Íslands á fertugasta og fimmta tvíæringnum í Feneyjum.
Samstarfsaðilar: Hreinn Friðfinnsson Studio, i8 Reykjavik, Pétur Arason & Ragna Róbertsdóttir – Ferocious Glitter II er styrkt af Myndlistarsjóði – Uppbyggingarsjóður Vestfjarða og Ísafjarðarbær styrkja starfsemi Úthverfu / Outvert Art Space.
OUTVERT ART SPACE / Gallerí Úthverfa
opið fimmtudaga – laugardaga kl. 16-18 og eftir samkomulagi