Ingvar Friðbjörn Sveinsson í Hnífsdal smíðaði í fyrra nákvæmt módel af breska togaranum Ceasar H 226 frá Hull. Ingvar sagðist hafa verið 7 mánuði að gera líkanið af togaranum eftir teikningum sem hann fékk frá skipasmíðastöðinni í Aberdeen. Líkanið er gert úr trefjaplasti. Ingvar notaði 412 bolta 2 mm bolta til verksins. Víraspilin, akkeri, hlerar og björgunarbátar eru nákvæm eftirlíking og virka rétt eins og í skipinu á sínum tíma. Hægt er að slaka út vírum og björgunarbátum niður. Líkanið er 2,80 metrar að lengd og er mikil listasmíð.
Ceasar var byggt 1952 í Aberdeen, gufuskip og 803 tonn að stærð. Togarinn strandaði við Arnarnes í apríl 1971 í björtu og góðu veðri þegar það var á leið til Ísafjarðar með bilaða togvindu. Mannbjörg varð. Um sumarið var það dregið af strandstað og ferðinni heitið til Hull en það sökk út í Víkurál.
Ingvar hefur nú sett sér að smíða næst Sólborgina ÍS 260 frá Ísafirði og er að bíða eftir teikningum af henni. Sólborgin var líka smíðuð í Aberdeen en árið 1951 og var 732 tonn að stærð.
Af þeim sökum er líkanið af Ceasar til sölu. Hægt er að skoða það við Dalveg 12 í Hnífsdal. Frekari upplýsingar gefur Ingvar í síma 663 7628.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.