Hafrannsóknarstofnun fékk 2018 styrk úr umhverfissjóði sjókvíaeldis að upphæð 94 milljónir króna til þess að vinna mat á burðarþoli fjarðar og sjókvíaeldissvæða.
Síðast voru birtar upplýsingar um burðarþolsmat á vefsíðu stofnunarinnar 27. ágúst 2018 og var það mat um Seyðisfjörð á Austurlandi.
Síðast var auglýst eftir umsóknum um styrki 30. janúar 2020 og rann frestur út 2. mars. Úthlutun styrkja hefur ekki enn verið birt. Sjóðurinn greiðir m.a. kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Við mat á umsóknum við úthlutun árið 2020 munu framhaldsverkefni sem þegar eru hafin njóta forgangs segir á vef Umhverfissjóðs sjókvíaeldis.
Umhverfissjóður sjókvíaeldis er fjármagnaður af eldisfyrirtækjunum. Markmið sjóðsins er að fjármagna verkefni, sem lúta að því að aðlaga fiskeldi hér á landi sem mest að þeim umhverfisskilyrðum sem fyrir hendi eru og lágmarka þannig umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis.
Fram kemur í skriflegu svari Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Höllu Signýjar Kristjánsdóttur á Alþingi, sem birt var í vikunni, að að ekkert svæði hefur verið burðarþolsmetið síðustu tvö ár og ennfremur að ekki er þess að vænta að önnur svæði verði metin til burðarþols.