Reykhólar: vilja að Vegagerðin borgi meira vegna Þ-H leiðar

Í ársreikningi Reykhólahrepps fyrir 2019 er athugasemd um kostnað vegna aðalskipulags þar sem segir að sveitarfélagið hafi á undanförnum árum lagt í verulegan kostnað við athugun á valkostum um leið fyrir nýtt vegstæði fyrir Vestfjarðarveg. „Unnið er að því að athuga réttastöðu sveitarfélagsins gagnvart því að krefja Vegagerðina um endurgreiðslu hluta þess kostnaðar.“ segir í athugasemdinni.

Fram kemur í ársreikningnum fyrir 2019 að kostnaður við skipulag hafi orðið 18 milljónir króna í stað 8 milljóna króna. Einkum er um að ræða kostnað við aðalskipulagsbreyingar vegna vegagerðar um Gufudalssveit. Sá kostaður fór 7 m.kr fram úr áætlun og annar skipulagskostnaður varð 3 m.kr. umfram áætlun.

Ekki kemur fram í gögnunum hverjar endurgreiðslur Vegagerðarinnar var á síðasta ári og hvort 18 m.kr. kostnaðurinn sé heildarkostnaður ársins eða kostnaður að frádregnum greiðslum Vegagerðarinnar.

Á síðasta hausti kom fram á bb.is í svörum Tryggva Harðarsonar, þáverandi sveitarstjóra að Reykhólahreppur hafði greitt 29,6 milljónir króna vegna Vestfjarðavegar á árunum 2017-19. Vegagerðin hafði þá endurgreitt 15,7 m.kr. Að sögn Tryggva átti Vegagerðin þá eftir að endurgreiða kostnað vegna 2019, en ekki kom fram hvað sú fjárhæð væri há.

Alls er kosnaður vegna skipulags Vestfjarðavegar orðinn a.m.k. nærri 40 milljónir króna á árunum 2017-19. Staðfest er að Vegagerðin hefur endurgreitt 15,7 m.kr.

Almenna reglan er að vegna framkvæmda af þessu tagi greiði sá kostnaðinn sem fer fram á breytinguna. Hins vegar hefur sveitarfélagið síðustu 3 ár lagt út í mikinn kostnað við athugun á kostum sem Vegagerðin lagði ekki til svo óvíst er hvað Vegagerðin telur sig eiga að greiða.

Athugasemdin í ársreikningi Reykhólahrepps bendir til þess að deilt sé um greiðsluþátttöku Vegagerðarinnar.

DEILA