Ársreikningar 2019 fyrir Reykhólahrepp voru afgreiddir í sveitarstjórn í síðustu viku. Halli varð af rekstri um 52 milljónir króna sem jafngildir 15% af skatttekjum ársins. Varð afkoman 41 milljón króna lakari en fjárhagsáætlun hafði gert ráð fyrir.
Tekjur reyndust verða 31 milljónum króna lægri en skv. fjárhagsáætlun. Útsvarstekjur urðu 12 milljónum króna undir áætlun og þjónustutekjur voru 24 m.kr. lægri. Tekjur frá Jöfnunarsjóði reyndust hins vegar 4 m.kr. hærri en áætlað hafði verið. Skatttekjur urðu 337 milljónir króna.
Fjármagnskostnaður reyndist 7 milljónum króna hærri en áætlað var í fjárhagsáætlun og afskriftir urðu 3 m.kr. hærri.
Stærsta framkvæmdin á árinu var bygging leiguíbúða. Kostnaður losaði 100 milljónir króna. Sveitarfélagið leggur fram stofnframlag á móti framlagi ríkisins og var hlutur sveitarfélagsins 11 milljónir króna, sem voru færðar á efnahagsreikning og höfðu því ekki áhrif á rekstrarniðurstöðuna.
Aðrar framkvæmdir ársins námu 22 m.kr. Tæpar 10 m.kr. fóru til Reykhólaveitu og 3,8 m.kr. til Barmahlíðar.
Heildarskuldir A og B hluta voru 256 milljónir króna í árslok 2019 og jukust um 80 milljónir króna á árinu.
Á árinu voru í starfi hjá Reykhólahreppi um 54 starfsmenn sem skiluðu um 42 ársverkum. Laun og starfstengdar greiðslur sveitastjórnar og sveitarstjóra námu samtals um 17,8 millj. króna.
Ágreiningsmál
Á árinu 2020 hafa verið gerðar bótakröfur á hendur sveitarfélaginu vegna starfsmannamála, en sveitarfélagið hefur hafnað kröfunum. Ekki liggja niðurstöður fyrir í framangreindum málum og talið að málin hafi ekki fjárhagsleg áhrif fyrir sveitarfélagið umfram kostnað við málsvörn. Einkum er þar um að ræða kröfu fyrrverandi sveitarstjóra um full laun til ágúst 2022 og miskabætur að auki.
Covid 19
Í ársreikningunum er gerð grein fyrir áhrifum covid 19 á fjárhag sveitarfélagsins. Þar segir að veruleg óvissa ríki en vænta megi að áhrif á rekstur sveitarfélagsins verði nokkur, m.a. vegna lægri skatttekna og annarra tekna, frestunar gjalddaga og aukinna útgjalda. Ljóst er að forsendur fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins fyrir árið 2020 eru að nokkru leyti brostnar og verður unnið að endurskoðun á henni.
.