FÍB hafnar samvinnuverkefnum í vegaframkvæmdum

Samkvæmt útreikningum Félags íslenskra bifreiðaeigenda er 33% dýrara að fela fjárfestum að sjá um vegaframkvæmdir heldur en ríkinu.
Munurinn felst í hærri fjármagnskostnaði einkafjárfesta og kostnaði við innheimtu vegtolla.

Vegna þessa hærri kostnaðar hefur FÍB lýst sig andsnúið frumvarpi samgönguráðherra um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum.
Þar er gert ráð fyrir að einkaaðilar annist flýtiframkvæmdir í vegagerð að hluta eða öllu leyti og fái greitt fyrir með innheimtu vegtolla. FÍB styður flýtiframkvæmdir jafnt og aðrar vegaframkvæmdir.
Aftur á móti telur FÍB rangt að leggja stórauknar álögur á vegfarendur til þess eins að ríkisvaldið geti tekið slíkar framkvæmdir út fyrir sviga í bókhaldi sínu.

Í umsögn við frumvarp um samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum sýnir FÍB dæmi um mismuninn á kostnaði við fimm af þeim sex verkefnum sem nefnd eru sem möguleg flýtiverkefni.

Forsendur útreikninganna eru að ríkið fái framkvæmdalán til 30 ára á 2,23% vöxtum og að vextir lána til einkafjárfesta (líklegast frá lífeyrissjóðum) verði 4,5% á þessum 30 árum.

Vegna vaxtamunar og vegtolla munu vegfarendur þurfa að greiða 20 milljörðum króna meira fyrir þessar fimm flýtiframkvæmdir ef þær verða á vegum einkafjárfesta.

DEILA