Arctic Fish er fiskeldisfyriræki í mikilli uppbyggingu. Fyrirtækið hefur stundað eldi síðan 2007 og byrjaði í Dýrafirði undir nafninu Dýrfiskur, síðar Arctic Sea Farm. Arctic Fish, móðurfyrirtækið hélt kynningarfund á Ísafirði í gær. Þar kom fram að fjöldi starfsmanna í fyrra fór yfir 60. Framleiðslan varð 3.200 tonn í fyrra og stefnir í rúmlega 8.000 tonn á þessu ári. Fyrirtækið hefur sótt um lóð á Ísafirði undir starfsemi sína.
Arctic Fish hefur leyfi til framleiðslu í sjókvíum í Tálknafirði og Patreksfirði auk Dýrafjarðar, samtals fyrir 11.000 tonnum. Auk þess hefur fyrirtækið starfsleyfi til
framleiðslu á 4.000 tonnum af regnbogasilungi við Sandeyri á Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi. Stefnt er á laxfiskaeldi í Arnarfirði, Önundarfirði og Ísafjarðardjúpi.
Matsskýrsla um stækkun úr 4.200 tonnum í 10.000 tonna eldi í Dýrafirði og matsskýrsla um 4.000 tonna laxfiskaeldi í Arnarfirði hefur verið send Skipulagsstofnun, umsagnaraðilum, auglýst í fjölmiðlum og kynnt á íbúafundum. Einnig er í umhverfismats ferli 1.300 tonna eldi í Önundarfirði.
Almennt jákvæð áhrif
Loks var kynnt á fundinum umsókn fyrirtækisins um 8.000 tonna eldi í Ísafjarðardjúpi miðað við framleiðslumagn en 10.000 sé miðað við lífmassa. Fyrir liggur frummatsskýrsla um eldið í Djúpinu. Niðurstaða umhverfismatsins er sú að fyrirhugað eldi í Ísafjarðardjúpi mun hafa verulega jákvæð áhrif á hagræna og samfélagslega þætti. Áhrif á aðra nýtingu verða óveruleg, tímabundin og afturkræf. Áhrif á landslag og ásýnd, fiskveiðar og siglingar verða óveruleg og afturkræf. Áhrif á botndýralíf á nærsvæði framkvæmdar verða talsvert neikvæð, þau verða þó staðbundin og afturkræf. Áhrif á eðliseiginleika sjávar, villta laxfiska, menningarminjar og verndarsvæði verða óveruleg. Áhrif á fugla í næsta nágrenni
við kvíar eru metin talsvert jákvæð. Áhrif á samgöngur og þjónustu á svæðinu eru einnig metin talsvert jákvæð.
Heildarniðurstaðan er því sú að í flestum tilvikum verða áhrifin vegna eldisins óveruleg.
Neikvæð áhrif verða að miklu leyti staðbundin og afturkræf, en framkvæmdin mun hafa verulega jákvæð áhrif á hagræna og samfélagslega þætti eins og áður sagði.
Fyrirhuguð eldissvæði í Ísafjarðardjúpi eru (1) Sandeyri við Snæfjallaströnd sem skiptist í tvær staðsetningar: austur og vestur, (2) út af Arnarnesi við Skutulsfjörð og (3) Kirkjusund utan við Vigur.
Myndir: Kristinn H. Gunnarsson.