Vestfirðir: Bach á sumarsólstöðum

 

 

Sæunn Þorsteinsdóttir sellóleiakri  leikur allar sex sellósvítur Bachs á sumarstólstöðum, sem eru laugardaginn 20. júní,  í sex kirkjum á norðanverðum Vestfjörðum — ein svíta í hverri kirkju. Með því að slást með í för kynnast tónleikagestir sveitakirkjum, þorpum, heimamönnum, upplifa þrjá firði, dali og eilífðarbirtu þegar dagurinn eins langur og hann verður.

Tilefnið er að það eru 300 ár liðin frá því að Bach skrifaði svíturnar sex.

Fyrsta svítan hljómar í kirkjunni á Þingeyri kl. 13. Svo verður haldið að Mýrum handan Dýrafjarðar og leikið kl. 15. Kl. 17 verður spilað í kirkjunni að Kirkjubóli í Valþjófsdal við Önnudarfjörð. Næst kl. 19 í Flateyrarkirkju, kl. 21 í kirkjunni á Suðureyri og síðasta svítan hljómar kl. 23 utar í Súgandafirði; að Stað.

Sæunn hefur skipað sér í fremstu röð íslenskra einleikara og kemur reglulega fram víða um heim. Hún er sjálf búsett í Bandaríkjunum og kennir meðal annars við Washington-háskólann í Seattle. Undafarin misseri hefur hún leikið reglulega með Sinfóníhljómsveit Íslands.

Þetta verður ekki í fyrsta sinn sem þessi verk hljóma undir hásumarsólinni vestra. Ísfirsk-danski sellóleikarinn Erling Blöndal Bengtsson var líkt og kollegi hans Sæunn nokkuð tíður gestur á heimaslóðum á síðari hluta ævi sinnar. Á mjög eftirminnilegum tónleikum í Hömrum á Jónsmessu 2007 steig þessi 75 ára listamaður á svið og lék fyrstu svítuna blaðlaust fyrir tónleikagesti og á öldum ljósvakans.

Tónleikadagurinn er skipulagður af Sæunni og Greipi Gíslasyni með stuðningi frá Tónlistarsjóði og Ísafjarðarbæ í samstarfi við Vestfjarðaprófastdæmi.

DEILA