Alþingi: eykur fé til samgönguverkefna

Horft yfir Kirkjuból í Bjarnardal í Önundarfirði. Mynd: svo.is

Meirihluti umhvefis- og samgöngunefndar Alþingis hefur lagt fram tillögur sínar um skiptingu viðbótarfjár til samgöngumála á einstakar framkvæmdir. Koma þær fram sem breyting við fimm ára samgönguáætlun 2020-24. Alls er aukið við fimm ára og fimmtán ára samgönguáætlanirnar um 6,5 milljarði króna.

Þar kemur fram að lagt er að verja 129 milljónum króna á þessu ári til landfyllingar austan hafnar á Bíldudal. Stækka verður Bíldudalshöfn til að efla fyrirtæki í kalkþörungavinnslu og laxeldi á sunnanverðum Vestfjörðum segir í tillögunum. Til breikkunar einbreiðra brúa eru á þessu ári 290 milljónir króna yfir Bjarna­dalsá í Önund­arf­irði og 390 milljónir króna við Botnsá í Tálknafirði.

Við þær fjárveitingar sem þegar eru til hafnarframkvæmda í Súðavík bætast 21,8 milljónir króna við nýtt verkefni: Dýpk­un við Norðurg­arð (6,0 m, 12.000 m3) en kostnaður er áætlaður 30 milljónir króna. Hlutur ríkissjóðs er 90% af kostnaði.

Neyðardýpkun á Reykhólum 

Fram kemur í nefndarálitinu að lagt er til að setja fé í sérstakan lið á næsta ári til þess að standa straum að hlut ríkisins í neyðardýpkun hafa. Nefnt er sérstaklega  að þurft hafi að áfangaskipta dýpkunarframkvæmd í höfninni á Reykhólum, en Vegagerðin samþykkti framlag til neyðardýpkunar til þess að tryggja áframhaldandi atvinnustarfsemi á staðnum en ekki tekst að ljúka verkinu fyrir gildandi fjárheimildir. Það sem eftir stendur eru 60 millj. kr. sem sveitarfélagið þarf að standa straum af þar til fjármagn fæst á samgönguáætlun fyrir ríkishluta framkvæmdarinnar.

Að meirihlutaálitinu og tillögunum standa fulltrúar stjórnarflokkanna og Viðreisnar.

DEILA