Gyllir sólin grund og hlíð

Svona var úthaginn í Birtufirði í lok maí. Mynd: Óla Friðmey Kjartansdóttir.

Óla Friðmey Kjartansdóttir, bóndi og hagyrðingur á Þórustöðum í Bitrufirði orti í vikunni um veðurfarið þegar „nú skín himnaljósið…gott að fá ylinn eftir regn gærdagsins…sprettutíð eins og hún gerist best“

Veður gerast væn og blíð
verma landsins hjarta.
Gyllir sólin grund og hlíð,
gleður ljósið bjarta.

Forsetaframbjóðandinn

Indriði á Skjaldfönn horfði hins vegar á sjónvarpskappræður forsetaframbjóðandanna og varð að orði þegar þeim lauk:

Jafnan rembist meira en má.

Margir undrast vominn.

Hausinn sem var honum á

í handarkrika er kominn.

Það er svo lesandans að ráða í við hvorn frambjóðandann er átt.

Annað mál í vikunni varð Indriða að yrkisefni. Sá sem í hlut á fær nafnbótina:

 

SKÁLKUR GÆRDAGSINS

Ekkert þjóð til auðnu vann,

aðeins smán að baka.

Þrælslund aldrei þrýtur hann,

þar er af nógu að taka.

Kristjana Sigríður Vagnsdóttir á Þingeyri sá vísu Indriða og prjónaði við með þeim orðum að hana gruni við hvern Indriði eigi og sneri meiningu vísunnar við:

Aldrei neina illsku kann,
englar yfir vaka.
Þrælslund ekki þekkir hann,
því mun engan saka.

Nú er það spurningin um hvern ortu þau Indriði og Kristjana?

DEILA