Orkustofnun: 400 smávirkjunarkostir á Vestfjörðum með 447 MWe afli

Kort úr skýrslunni, þar merktir eru inn kostir.

Út er komin skýrsla sem verkfræðistofan Vatnaskil gerði fyrir Orkustofnun um smávirkjunarkosti á Vestfjörðum.  Kortlagðir voru vænlegir smávirkjanakostir í sveitarfélögum á Vestfjörðum að undanskildu friðlandinu á Hornströndum. Þá voru auk þess kostir innan vatnasviða þar sem þegar eru virkjanir eða rannsóknir í gangi vegna virkjanahugmynda ekki metnir í þessu ferli.

Lagt var upp með að finna kosti á stærðarbilinu 100 kWe upp í 10 MWe. Í grunninn var meðalrennsli í vatnsföllum ákvarðað út frá hæðarlíkani, meðalúrkomukorti og meðaluppgufunarkorti. Náttúruleg orkugeta var svo ákvörðuð í farvegum vatnsfalla sem margfeldi hæðar og rennlis. Í kjölfarið voru vænlegustu inntakspunktar fyrir virkjun fundnir í hverju vatnsfalli, sem staðbundin hámörk í náttúrulegri orkugetu. Hagstætt þvermál fallpípu er ákvarðað og fundinn hagstæðasti endapunktur í farveginum neðanstreymis. Þar sem skilyrði um afl og ásættanleg falltöp eru uppfyllt er kosturinn metinn verðugur nánari athugunar. Kennistærðir þeirra kosta eru settar fram í töflu, vatnasvið eru dregin og sýnd á myndum fyrir hvert sveitarfélag.

Til að meta miðlunarmöguleika við inntak er reiknað lónrými og hæð stíflu þ.a. miðla megi meðalrennsli vatnsfalls innan 24 klst.

Á Vestfjörðum hafa nú verið kortlagðir 401 smávirkjanakostir, með heildarafl 447 MWe segir í skýrslunni.  Hafa ber í huga að tölum um orkugetu þarf að taka með fyrirvara, um algjöra frumathugun er að ræða sem hefur það að leiðarljósi að draga fram sem flesta kosti sem vert væri að kanna nánar.

Skýrsluhöfunar eru Ágúst Guðmundsson, Hjalti Sigurjónsson og Sveinn Óli Pálmarsson og var Ágúst verkefnisstjóri.

Flestir kostirnir eru í Vesturbyggð, en þar voru 84 staðir skoðaðir. Í Reykhólahreppi og Strandabyggð voru 65 kostr í hvori sveitarfélagi og 68 í Ísafjarðarbæ. Þá voru 28 kostir í Árneshreppi, 21 í Kaldrananeshreppi, 16 í Tálknafjarðarhreppi og 4 í Bolungavík.

Fyrr í vetur var kynnt önnur skýrsla um svipað efni frá Verkís sem unnin var fyrir Vestfjarðastofu. Í henni voru 68 kostir skoðaðir og töldust 18 hagkvæmir og 15 mögulega hagkvæmir.

Sem dæmi er hér birtur hluti af töflu yfir virkjunarkosti í Ísafjarðarbæ.

Greint frá virkri fallhæð, innrennsli til virkjunar og orkugetu virkjanakostanna m.v. meðalúrkomukort Veðurstofu Íslands, merkt VÍ, hönnunarrennsli sem er 30% af rennsli ákvörðuðu útfrá meðalúrkomukorti VÍ, merkt 30%, og loks innrennsli og orkugetu ákvörðuðu útfrá meðalúrkomukorti úr RÁV2, merkt RÁV2.

DEILA