Körfuknattleiksdeild Vestra verður með sumaræfingar sem áður. Aldrei hefur verið boðið upp á jafn veglega sumardagskrá og nú. Að sögn Birnu Lárusdóttur er bæði verið að vega upp æfingaleysið í covid-19 og svo er körfubolti orðin nánast heilsársíþrótt og því þarf að bjóða upp á metnaðarfullar æfingar í samræmi við það.
Sumaræfingarnar hefjast á mánudaginn kemur, þann 8. júní og eru fyrir iðkendur fædda 2010 og fyrr. Fyrir 1.-4. bekk á Grunnskólaaldri verður svonefnd sumarkarfa sem einnig hefst á mánudaginn.
Körfuboltabúðir Vestra eru svo rúsínan í pylsuendanum en þær fara fram 6.-11. ágúst. Upppantað er í búðirnar en tekið við á biðlista. Þær þykja með bestu búðum sinnar tegundar á landinu og þótt víðar væri leitað.