Kaffihúsið á Litlabæ í Skötufirði opnar í dag, miðvikudaginn 27. maí kl:10. Boðið verðu upp á kaffi, te og kakó að ógleymdum vöfflum og fleira heimabökuðu góðgæti.
Segja má að með þessu sé hið íslenska ferðasumar gengið í garð a.m.k. við Ísafjarðardjúp og nú geti landsmenn fara að ferðast um Vestfirði sem aldrei fyrr.
Litlibær var reistur árið 1895 af tveimur vinafjölskyldum, sem bjuggu upphaflega sín í hvorum hluta hússins og var því þá skipt í miðju með þvervegg. Húsið er úr timbri með steinhlöðnum veggjum upp að langhliðum og grasi á þökum.
Litlibær er aðeins 3,9m x 7,4m að grunnfleti (utanmál) en portbyggt loft er yfir jarðhæð. Tvö útieldhús voru skammt frá íbúðarhúsinu, og alls munu liðlega 20 manns hafa búið í Litlabæ á tímabili. Frá árinu 1917 bjó aðeins ein fjölskylda á jörðinni. Búið var í Litlabæ fram til 1969.
Litlibær hefur verið í vörslu Þjóðminjasafnsins frá árinu 1999 sem hafði veg og vanda af endurbyggingu bæjarins og naut framkvæmdin mikils skilnings á Alþingi á sínum tíma þegar kom að fjárveitingum. Endurbótum er þó ekki enn lokið.