Strandabyggð nýtti sér hlutabætur

Íþróttamiðstöðin Hólmavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Strandabyggð er eina sveitarfélagið á Vestfjörðum sem hefur nýtt sér úrræði stjórnvalda um hlutabætur. Til þess að bregðast við skyndilegu fjöldaatvinnuleysi var í skyndi sett löggjöf sem heimilaði Atvinnuleysistryggingasjóði til 1. júní næstkomandi að greiða atvinnuleysisbætur til launamanna sem voru ekki lengur í fullu starfi heldur í hlutastarfi.  Tilgangurinn er að milda höggið sem launamaðurinn verður fyrir þegar launin lækka vegna lægra starfshlutfalls. Skilyrðin sem sett voru er að skerðingin sé a.m.k. 10% og getur orðið 75%.

Hlutabætur þýðir tekjutap

Þetta þýðir að launamaðurinn verður ekki fyrir tekjutapi séu laun hans að 400.000 kr á mánuði fyrir full starf. En séu þau hærri og að 700.000 kr verður samkvæmt ákvæðum laganna tekjutapið 10%. Séu heildarlaunin meiri en 700.000 kr verður tekjutapið allt það sem umfram er. Hlutabótaleiðin þýðir því í flestum tilvikum launalækkun. En á móti, og það er tilgangur úrræðisins, er komist hjá uppsögn úr starfi. Ríkið greiðir atvinnuleysisbætur að hluta til í því skyni að verja starf launamannsins.

Tímabundinn samdráttur í starfsemi

Forsenda laganna fyrir því að launagreiðandi geti farið þessa leið er að um sé að ræða tímabundinn samdrátt í starfsemi vinnuveitanda. Ekkert í lagatextanum útilokar sveitarfélög eða opinberar stofnanir til hlutabóta en athyglisvert er þó að Félagsmálaráðherra talaði um fyrirtæki og vinnuveitendur í framsöguræðu sinni fyrir málinu á Alþingi. Hvergi verður séð að tekið sé fram að úrræðið eigi við um opinbera aðila.

Strandabyggð: grunnskóli, áhaldahús og íþróttamiðstöð

Þogeir Pálsson, sveitarstjóri Strandabyggðar segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að Strandabyggð hafi staðið frammi fyrir verulegum breytingum á starfsemi sinni í kjölfar tilmæla stjórnvalda um aðgerðir vegna Covid-19. “ Það lá því fyrir að brjóta þyrfti upp hefðbundna starfsemi í nokkrum deildum sveitarfélagsins.  Þessar breytingar náðu til stöðugilda í grunnskóla, áhaldahúsi og íþróttamiðstöð á tímabilinu mars-maí.“ segir í svarinu.

Þarna er væntanlega vísað til þess að samdráttur hafi orðið í starfsemi íþróttahússins og grunnskólans vegna lokunar en óljósara er hver breytingin hafi verið í starfsemi áhaldahússins. Ákvæði laganna um tímabundinn samdrátt eru án vafa uppfyllt. Aðspurður segir Þorgeir að þetta hafi snert 8 stöðugildi og sé frá 25% til 75% starfshlutfalls.

Enginn tekjusamdráttur

Í venjulegum fyrirtækjum verður tekjusamdráttur samhliða minnkandi starfsemi. Strandabyggð er ekki venjulegt fyrirtæki heldur opinber aðili sem aflar tekna með skattheimtu. Stærsti tekjuliðurinn er útsvar. Þegar skoðaðar eru útsvarstekjur Strandabyggðar á þessu ári kemur í ljós að þær hafa ekki dregist saman. Með öðrum orðum hæfni sveitarfélagsins til að greiða starfsmönnum sínum laun hefur ekkert skerst.

Útsvarstekjur í mars 2020 voru 18,3 m.kr og jukust frá febrúar úr 15,8 m.kr. Í apríl voru útsvarstekjurnar 18,7 m.kr. Fyrstu fjóra mánuðina voru útsvarstekjurnar 73 m.kr. sem er nánast það sama og fyrstu fjóra mánuði 2019.

Hlutabótaleiðin var hins vegar tækifæri til þess að lækka launaútgjöld og það var gert. Það er nokkuð víst að launþegarnir sem í hlut eiga urðu fyrir tekjuskerðingu vegna ákvörðunar sveitarfélagsins. Önnur sveitarfélög á Vestfjörðum nýttu ekki hlutabótaleiðina. Sveitarstjóri, sem Bæjarins besta ræddi við, sagði að á sínum bæ hefði engum dottið hlutabótaleiðin í hug.

-k

 

 

DEILA