Fyrir 100 árum, þann 20. maí 1920 fékk Jón Eyjólfsson bóksöluleyfi á Flateyri og stofnaði í kjölfarið Bókaverzlun Jóns Eyjólfssonar, sem var rekin í sama húsnæði og samhliða Versluninni Bræðurnir Eyjólfsson, sem flestir þekkja í dag sem Gamla Bókabúðin á Flateyri.
Í tilefni af þessum tímamótum verður gestkvæmt á Flateyri í sumar þar sem fjöldi rithöfunda og tónlistarmanna munu koma fram.
Það er viðeigandi að Auður Jónsdóttir hefji þessa afmælisdagskrá með sinni frábæru sýningu, Auður og Auður.
Í sýningunni Auður og Auður talar Auður Jónsdóttir rithöfundur til ömmu sinnar, Auðar Laxness, þar sem hennar helsta umræðuefni er maðurinn sem hún giftist á Flateyri í óþökk ömmu sinnar.
Sýningin er byggð á bók Auðar, Ósjálfrátt, sem lýsir lífi hennar á Flateyri eftir að hún flutti þangað, stuttu eftir snjóflóðið 1995.
Sýningin er í senn fyndin og hjartnæm og ættu Flateyringar og aðrir að kannast við flestar sögupersónurnar í sýningunni.
Sýningin verður haldin á sjómannadagshelginni í nýju Guðnabúð, (gamla Fiskborg), sem er nýtt húsnæði Björgunarsveitarinnar á Flateyri og mun öll innkoma renna óskipt til húsakaupa Björgunarsveitarinnar Sæbjargar á Flateyri.
Miðaverð er 3,500 kr og forsala miða verður í Gömlu Bókabúðinni á Flateyri:
Mánudaginn 25. maí kl. 16:00 – 18:00
Laugardaginn 30. maí kl. 12:00 – 16:00
Laugardaginn 6. júní kl. 12:00 – 15:30
Miðar verða einnig seldir við hurð á sýningunni ef húsrúm leyfir.