Í bréfi sem forsvarsmenn Gamanmyndahátíðarinnar á Flateyri hafa sent Ísafjarðarbæ kemur fram að í haust verði hátíðin haldin í síðasta sinn og þar með ljúki 5 ára starfi við þetta verkefni.
Ástæðan sem upp er gefin er áhugaleysi Bæjarstjórnar Ísafjarðar og enginn vilji til að gera við hátíðina langtímasamning.
Í bréfinu segir meðal annars “ eftir nokkra ára baráttu við bæjarstjórn Ísafjarðar um stuðning, höfum við ákveðið að láta gott heita. Með hverjum póstinum sem ekki er svarað, bókun menningarmálarnefndar um hve ómerkileg hátíðin sé og hverri neitun bæjarráðs um stuðning höfum við einfaldlega misst allan kraft og ánægju úr þessu ólaunaða starfi okkar og höfum því ákveðið að hátíðin í haust verði seinasta Gamanmyndahátíð Flateyrar.“
Þá segir í bréfinu að gestum á viðburði hátíðarinnar hafi fjölgað úr 300 í tæplega 2000 og að á meðal listamanna sem komið hafi fram séu meðal annars Tvíhöfði, Edda Björgvins, Sveppi, Á móti sól, Arnór Pálma, Villi Vísindamaður, Hellisbúinn, Óskar Jónasson, Stuðlabandið, Mugison, Janus Jakobsson, Ske, Þráin Bertelsson, Ágúst Guðmundsson, Greifarnir, Hugleikur Dagsson, Bylgja Babýlóns og Tónlistarskóli Ísafjarðar, að ótöldum þeim 135 gamanmyndum sem hafa verið sýndar á hátíðinni, þar af 70 frumsýningar. Með myndunum hafa 115 leikstjórar og aðstandendur gert sér ferð til Flateyrar, fyrir utan alla aðra gesti hátíðarinnar.