Háskólasetur Vestfjarða hefur stofnað nýja stöðu rannsóknastjóra sem mun hafa umsjón með ört vaxandi rannsóknastarfsemi Háskólasetursins. Þetta er í samræmi við niðurstöðu stefnumótunarfundar í janúar síðastliðnum og markmið Háskólasetursins að efla samstarf á milli nemenda, leiðbeinenda og gestafræðimanna við fyrirtæki, rannsóknarstofnanir og rannsóknarverkefni á Vestfjörðum.
Nýr rannsóknastjóri Háskólaseturs er dr. Catherine Chambers, sem hefur starfað sem fagstjóri meistaranámsins í haf- og strandsvæðastjórnun frá 2016. „Ég er mjög spennt að fá þetta tækifæri,“ sagði Catherine af þessu tilefni. „Staða rannsóknastjóra hjálpar til við að efla og styrkja innviði Háskólasetursins og að vinna betur með styrkleika þess.“
Að eigin frumkvæði verður Catherine til að byrja með í hlutastarfi sem rannsóknastjóri en mun að öðru leyti stunda rannsóknir í gegnum styrki og verkefni. Í nánustu framtíð verður aðalstarf hennar, samhliða þessu hlutastarfi, rannsóknarstaða við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri með aðsetur í Háskólasetrinu á Ísafirði. „Vestfirðirnir eru frábær staður til að búa á og starfa,“ segir hún. „Það eru svo mörg tækifæri fyrir fólk eins og mig sem hefur áhuga á breiðu sviði sem tengist auðlindum hafsins og sjávarbyggðum. Ég sé fjölda vaxtarmöguleika á Vestfjörðum sem snúa að því hvernig Háskólasetrið getur tengst nærumhverfinu, stofnunum og fyrirtækjum. Rannsóknir og kennsla á háskólastigi hefur mikilvægu hlutverki að gegna þegar kemur að byggðaþróun.“
Háskóla- og rannsóknarumhverfið á Vestfjörðum hefur vaxið og dafnað undanfarið og er þetta nýja starf mikilvægur liður í þeim vexti. „Stjórn Háskólaseturs Vestfjarða var einróma í ákvörðun sinni að grípa þetta tækifæri þegar það gafst,“ sagði dr. Peter Weiss forstöðumaður Háskólaseturs. „Áður hefur bandaríski háskólinn School for International Training komið á fót tveimur föstum stöðugildum hér á Vestfjörðum í samstarfi við Háskólasetrið. Þetta nýja samstarf við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar stækkar svo enn „krítískan massa“ í rannsóknum og kennslu hér á svæðinu. Auk þess fékk Háskólasetrið nýverið rannsóknarstyrk frá NordForsk, til að framkvæma rannsókn á næsta ári sem mun enn bæta í þennan vöxt.“
Staða fagstjóra í haf- og strandsvæðastjórnun var auglýst fyrr í vetur og er ráðningaferlið á lokastigi.
Árum saman hefur Háskólasetrið einbeitt sér að því að koma upp staðbundinni kennslu á háskólastigi á Vestfjörðum, eins og því var ætlað við stofnun þess. Með tilkomu tveggja námsleiða, fjölda nemenda og tveggja fagstjóra, sem eru virkir í rannsóknum, hafa styrkumsóknir og rannsóknartækifæri aukist verulega. Öll rannsóknarverkefnin tengjast áherslusviðum Háskólasetursins í umhverfis- og auðlindastjórnun hafs- og stranda og í byggðafræði.