Ísafjarðarbær og Viðlagatrygging semja um bætur

Það fór allt á flot á Ísafirði í dæmalausri rigningu og asahláku í febrúar 2015.

Niðurstaða er komin í bótakröfu Ísafjarðarbæjar á hendur Viðlagatryggingu Íslands vegna tjóns sem hlaust á eigum bæjarins í vatnsflóðunum 8. febrúar 2015. Viðlagatrygging greiðir bænum 23 milljónir kr. og koma þær til viðbótar 13 milljónum kr. sem ákveðnar voru á fjárlögum 2015. Um er að ræða samkomulagsbætur og með greiðslu þeirra telst málið endanlega lokið af hálfu beggja aðila.

Íþróttamannvirkin á Torfnesi voru ekki tryggð og njóta því ekki tryggingaverndar frá Viðlagatryggingu Íslands. Gísli Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðbæjar, segir að niðurstað málsins sé viðunandi, sé horft fram hjá tjóni á fótboltavöllunum.

Skömmu eftir flóðin hafnaði stjórn Viðlagatryggingar bótakröfunni á þeim forsendum að tjónið félli ekki undir bótasvið Viðlagatryggingar. Ísafjarðarbær kærði úrskurðinn og  fyrir ári síðan felldi úrskurðarnefnd Viðlagatryggingar ákvörðunina úr gildi vegna mikilla annmarka á úrskurðinum.

Samkvæmt samkomulaginu lýsir Ísafjarðarbær því yfir að fallið er frá öllum kröfum, hvaða nafni sem þær nefnast, á hendur Viðlagatryggingu Íslands vegna vatnsflóðanna á Ísafirði og á Suðureyri.

smari@bb.is

DEILA