Ferðumst innanlands – Djúpavík

Ferðumst innanlands er slagorð sem gjarnan heyrast þessa dagana. Mörg hótel eru með tilboð á gistingu í sumar og er Hótel Djúpavík eitt þeirra.
Tilboðið gildir til 15. september og vakin er athygli á að það og verður bóka beint hjá hótelinu í síma 451-4037 eða senda póst á netfangið djupavik@djupavik.is.

Náttúran sem umvefur Árneshrepp er einstök og stórbrotin og má þar finna alveg einstaka kyrrð.
Hvíld frá ys og þys hversdagslífsins er oft nauðsynleg.
Þá getur verið notalegt að setjast í fjöru, slappa af og hlusta á náttúruhljóðin, ganga á fjall og njóta náttúrunnar með fuglunum eða leggjast í lautu og fá sér blund.

Árið 1934 var hafist handa við byggingu síldarverksmiðju á Djúpavík og aðeins rúmu ári síðar, eða 7. júlí 1935 var farið að framleiða bæði síldarmjöl og lýsi.
Veiðin var mjög góð og verksmiðjan malaði gull.

Þegar síldarverksmiðjan var fullbyggð var hún langstærsta steinsteypta bygging á Íslandi. Enn þann dag í dag er hún gríðarstór, 90 metra löng á 3 hæðum.

Síldarverksmiðjan var útbúin öllum fullkomnustu tækjum til síldarbræðslu og vinnslu á mjöli. Lýsið fór í gegnum 6 skilvindur sem skildu úr því vatn og föst efni og fór síðan í steinsteypta tanka fyrir utan verksmiðjuna sem rúmuðu samtals 5,6 tonn. Slíkar skilvindur höfðu ekki verið notaðar áður hér á landi.

En tímarnir breyttust. Aflinn náði hámarki á svæðinu sumarið 1944, en eftir það minnkaði síldarstofninn hratt. Eftir nokkrar misheppnaðar tilraunir til nýrra notkunarmöguleika var síldarverksmiðjunni endanlega lokað árið 1954.

DEILA