Helga Guðmundsdóttir, íbúi í Hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík, er meðal þeirra elstu sem sigrast hafa á COVID-19 í heiminum.
Hún verður 103 ára eftir nokkra daga.
Í viðtali við Fréttablaðið í dag segir Agnar H. Gunnarsson, bóndi á Miklabæ í Skagafirði og sonur Helgu móður sína hafa sigrast á ýmsu í gegnum tíðina og segir hana í fínu formi miðað við aldur.
„Hún hefur til dæmis tvisvar sinnum fengið berkla svo hún er vön að sigrast á hinum ýmsu vandræðum,“ segir Agnar.
Helga fæddist á Blesastöðum á Skeiðum árið 1917, ári áður en spænska veikin gekk hér yfir. „Spænska veikin var á heimilinu þar sem mamma bjó en þá var hún árs gömul og segist ekkert muna eftir því,“ segir Agnar og hlær.
Helga veiktist af COVID-19 þann 5. apríl síðastliðin og var útskrifuð úr einangrun á síðasta laugardag.