Í dag er alþjóðlegi handþvottadagurinn sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur staði fyrir ár hvert frá árinu 2009 undir yfirskriftinni „Björgum mannslífum: Þvoum okkur um hendur.“
Að þessu sinni er sjónum beint að heilbrigðisstarfsfólki og þeirra þætti í að tryggja öryggi sjúklinga og fyrirbyggja smit með reglubundnum og góðum handþvotti. COVID-19 faraldurinn er skýrt dæmi um hvað veirusmit geta breiðst hratt út og afgerandi áminning um mikilvægi handþvottar.
Því er óhætt að segja að heilbrigði sé í okkar allra höndum þar sem við getum haft mikil áhrif með reglulegum handþvotti.
Samkvæmt upplýsingum Sameinuðu þjóðanna er áætlað að á hverju ári deyi um 16 milljónir manna af völdum smita á sjúkrahúsum.
Að minnsta kosti hálf milljón sjúklinga smitist á degi hverjum í heiminum og af þeim deyi á bilinu 20 – 50 þúsund í kjölfarið.
Aðstæður fólks til að gæta hreinlætis eru víða bágbornar, einkum í fátækum ríkjum þar sem fólk býr við margvíslegan skort og jafnvel aðgengi að hreinu vatni er torvelt. Talið er að aðeins um 19% fólks á heimsvísu þvoi sér um hendur eftir salernisferð. Handþvottur er ein öflugasta leið sem völ er á til að vernda sjálfan sig og fjölskyldu sína fyrir veikindum.
Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus forstjóri Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gerði alþjóðlega handþvottadaginn að umtalsefni á fréttamannafundi stofnunarinnar í gær.
Dr. Tedros minntist einnig á að í dag, 5. maí er einnig alþjóðadagur ljósmæðra og enn fremur að árið 2020 sé helgað hjúkrun og störfum hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra samkvæmt ákvörðun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
Hann færði hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum sérstakar þakkir fyrir þeirra mikilvægu störf og hvatti þjóðir heims til að gera slíkt hið sama.