Ísafjörður: Skapa á sátt milli kríu og manna

Í vor og sumar verður áfram unnið að því að skapa sátt milli íbúa og hinnar friðuðu en árásargjörnu kríu í Tunguhverfi á Ísafirði.

Töluvert hefur verið þrengt að varpsvæðum kríunnar í Skutulsfirði og því hafa þau færst til í firðinum eftir því sem erfiðara verður fyrir fuglinn að finna sér pláss.

Líkt og fyrri ár verður borinn skítur á svæði þar sem kríuvarp er næst göngustígnum í Tunguhverfi.
Er það gert til að græða jarðveginn upp og færa varpið fjær stígnum.

Einnig verður sett upp upplýsingaskilti um kríuna og standar fyrir kríuprik sem hægt er að nota meðan gengið er framhjá kríuvarpinu.

Krían er friðuð samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

DEILA