Styrkir til nýnema sem innritast í Háskóla Íslands í haust

©Kristinn Ingvarsson

Háskóli Íslands auglýsir eftir umsóknum um styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands en þeir verða veittir til framhaldsskólanema sem ná afburðaárangri á stúdentsprófi og innritast í Háskóla Íslands í haust.

Þetta er í þrettánda sinn sem styrkjum er úthlutað úr sjóðnum en frá upphafi hafa átt í 300 nýnemar við Háskólann hlotið styrki úr honum.

Styrkirnir eru að fjárhæð 300.000 kr. hver auk 75.000 kr. til endurgreiðslu á skrásetningargjaldi við Háskóla Íslands.

Umsóknarfrestur um styrki úr Afreks- og hvatningarsjóði Háskóla Íslands er til 15. júní í ár, líkt og umsóknarfrestur við nám í skólann.

Við val á styrkhöfum er tekið mið af:
• framúrskarandi námsárangri á stúdentsprófi
• virkni í félagsstörfum
• árangri nemenda á öðrum sviðum, s.s. í listum og íþróttum
• sérstökum framförum í námi eða góðum námsárangri þrátt fyrir erfiðar aðstæður

Að þessu sinni verður m.a. sérstök áhersla lögð á að styrkja þá nemendur sem sækja um kennaranám eða annað nám í menntavísindum og eins þá nemendur sem hafa íslensku sem annað mál.

Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.

DEILA