Bolungavíkurkaupstaðir vinnur að deiliskipulagi fyrir nýja hesthúsabyggð og verður það fljótlega auglýst og gefinn kostur á umsögnum og athugasemdun.
Deiliskipulagssvæðið er staðsett norðan við núverandi hesthúsabyggð. Núverandi hesthúsabyggð er á snjóflóðahættusvæði C. Mörg snjóflóð hafa fallið á svæðið og hafa valdið tjóni á mannvirkjum. Skv. Aðalskipulagi Bolungarvíkur 2008 – 2020, er gert ráð fyrir að flytja hesthúsahverfið út fyrir snjóflóðahættusvæðið. Hesthúsahverfið verður stækkað til norð-austurs og allar byggingar verða utan snjóflóðahættusvæðis.
Svæðið er skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem opið svæði til annarra nota ætlað fyrir hesthúsabyggðina sem færist af hættusvæði. Þar sem allar meginforsendur liggja fyrir í gildandi aðalskipulagi er ekki talin þörf á að taka saman skipulagslýsingu vegna deiliskipulagsgerðarinnar.
Umhverfismálaráð Bolungarvíkur, í samstarfi við Hestamannafélagið Gný, ákvað á fundi sínum 7. maí 2019 að hefja deiliskipulagsvinnu vegna færslu hesthúsasvæðisins.
Skv. umsögn Veðurstofunnar verða snjóflóð sjaldgæfari og minni eftir því sem nær dregur öxl Ernis. Til er hættumat af þessu svæði frá árinu 1997 og sýnir það línu sem er sambærileg við B-línu. Önnur mannvirki, m.a. skeiðvöllur og gerði, verða áfram nýtt á núverandi stað. Núverandi reiðvöllur og tamningavöllur sunnan Múrhúsavegar eru innan marka skipulagssvæðisins og er það svæði innan hættusvæðis og verður fært.
Deiliskipulagið gerir ráð fyrir 10 lóðum fyrir allt að 16 hesthús sem geta hýst til samans að hámarki 150 hross og ein lóð undir reiðhöll. Lóðir eru frá 770 m² til 1225 m2. Lóð reiðhallar er 4250 m2.
Annað húsdýrahald til tómstunda er leyfilegt og skulu gripahúsin innréttuð með viðeigandi búnaði. Öllum dýrum skal haldið innan girðingar. Við hönnun húsa, sem ætluð eru fyrir önnur húsdýr, skal gera ráð fyrir að þau geti nýst sem hesthús ef aðstæður breytast.
Aðkoma inn á deiliskipulagssvæðið er frá Syðridalsvegi inn á Múrhúsaveg. Frá Múrhúsavegi er gerður nýr vegur í norður sem liggur að hesthúsalóðunum. Við Múrhúsaveg er gert ráð fyrir 16 bílastæðum og við reiðhöll er gert ráð fyrir 28 bílastæðum eða samtals 44 bílastæðum. Gera skal ráð fyrir 4 til 8 bílastæðum á hverri lóð. Samtals er gert ráð fyrir 96 bílastæðum á deiliskipulagssvæðinu.