Heildarútflutningsverðmæti ferskafurða nam 60,3 mö.kr. árið 2018.
Langverðmætasta fisktegundin í ferskum afurðum er þorskur en útflutningsverðmætið af ferskum þorski nam 39,4 mö.kr. sama ár sem gerir um 65% af öllum útflutningi á ferskum afurðum.
Stór hluti veitingastaða víða um heim er lokaður þessa dagana vegna Covid-19 og hefur það dregið mjög mikið úr eftirspurn eftir ferskum fiski frá Íslandi en veitingastaðir hafa verið stór kaupandi af ferskum fiski frá Íslandi á síðustu árum. Þetta hefur sett strik í rekstur íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja en umtalsverður hluti af íslenskum botnfiski er fluttur út ferskur.
Þetta kemur vel fram hjá minni bátum en að undanförnu hefur verið góður afli hjá þeim bátum sem róa á handfæri en fiskverð hefur hrunið að undanförnu og var verð á óslægðum þorski vel innan við 200 krónur á kíló í gær á innlendum fiskmörkuðum.