Þessar stökur eru úr ljóðabókinni Geislabrot eftir Súgfirðinginn Pál Janus Þórðarson (1925-2010) en bókin kom út árið 1989.
Blessuð blíðan
Þó regnið eitthvað angri mig
angan vitin mettar.
Nú er hitinn níu stig
og náttúran andar léttar.
Það vorar
Víða sést á vori skriður,
vetur sleppir beislunum.
Himnadrottning hellir niður
heilsubótar geislunum.