Rammaáætlun 4: 5 nýir virkjunarkostir á Vestfjörðum

Orkustofnun hefur sent að ósk verkefnisstjórnar fjórða áfanga rammaáætlunar gögn um 43 nýja virkjunarkosti, sem bætast þar með við þá kosti sem skilgreindir voru í þriðja áfanga.

Í ljósi þess að Alþingi mun ekki taka 3. áfanga rammaáætlunar til afgreiðslu á yfirstandandi þingi telur Orkustofnun að fyrri áætlanir um endanleg tímamörk fyrir skil á virkjunarkostum í fjórða áfanga rammaáætlunar þarfnist endurskoðunar. Því hefur Orkustofnun ákveðið að framlengja frest til móttöku virkjunarhugmynda, að sinni um óákveðinn tíma. Geta því enn bæst við fleiri kostir sem yrðu teknir til meðferðar við 4. áfangann.

Orkustofnun hefur ekki lokið uppfærslu á kostnaðarflokkagreiningu fyrir virkjunarkosti, þannig að nýir kostir eru ekki  samanburðarhæfir við eldri kosti.

Orkustofnun hefur yfirfarið framlögð gögn af sinni hálfu um virkjunarkosti í vatnsafli og jarðhita, en í ljósi óvissu um lagalega stöðu vindorkunnar gagnvart rammaáætlun hefur stofnunin sent áfram gögn um þá kosti til verkefnisstjórnar án þess að yfirfara gögnin sérstaklega af sinni hálfu. Hafa vindorkukostirnir því fengið sömu meðferð af hálfu Orkustofnunar og viðhöfð var í þriðja áfanga rammaáætlunar.

Af þessu 43 kostum eru fimm á Vestfjörðum, þrjár vatnsaflsvirkjanir og tveir vindorkugarðar. Í raun eru þeir aðeins 4 þar sem tveir vatnsaflskostanna útiloka hvorn annan og yrði aðeins annar valinn ef til framkvæmda kæmi. Samanlagt afl kostanna fjögurra er um 218 MW. Vindorkukostirnir eru samtals upp á 188 MW og mögulegar vatnsaflsvirkjanir gætu gefið um 30 MW.

Vindorkukostirnir eru annars vegar í Garpsdal ( nr 1 á kortinu) . Sá er talinn gefa 88 MW afl. Það er EM Orka ehf sem stendur að honum. Hinn vindgarðurinn er í Strandasýslu, Nónborgir við Hrútafjörð (nr 33) sem talinn er gefa 100 MW afl. Það er Vesturverk ehf sem er með þann kost til athugunar.

Vatnsaflskostirnir er þrír. Orkubú Vestfjarða athugar Tröllárvirkjun (nr 19)  á Glámuhálendinu. Hún er talin gefa 13,7 MW afl. Vesturverk ehf er með Hvanneyrardalsvirkjun (nr 31) í athugun, sem er 13,5 MW. Þessir tveir kostir útiloka hvorn annan segir í greinargerð Orkustofnunar.  Þriðji vatnsaflskosturinn er Skúfnavatnavirkjun ( nr 32) í Ísafirði innst í Djúpinu , 16 MW sem Vesturverk ehf stendur að.

 

DEILA