Tónlistarhátíðin Aldrei fór ég suður fór fram í breyttri mynd síðasta laugardag þegar sýnd var tveggja tíma dagskrá af tónlistarinnslögum í bland við ýmsar innkomur af öðru sniði eins og bóka- og plötukynningum, mataruppskriftum og poppgetraunum.
Fram kom landsþekkt tónlistarfólk ásamt heimafólki sem skemmti með myndskeiðum að heiman eða úr æfingarrýmum.
Hátíðin var sýnd á samfélagsmiðlum sem og aukarás RÚV og var aðgengileg viðskiptavinum Nova í gegnum Nova Tv og var í beinni á Rás 2.
Slagorð hátíðarinnar í ár varð, sökum samkomubanns, „Ekki koma vestur“ og svo virðist sem landsmenn hafi hlýtt þeim fyrirmælum.
Samkvæmt tölum Vegagerðarinnar hefur bílaumferð um Ísafjarðardjúp, í átt til Ísafjarðar í páskaviku, aldrei mælst minni frá aldamótum. Allt frá því að hátíðin Aldrei fór ég suður leit dagsins ljós árið 2004 hefur umferðin farið stigvaxandi og sló öll met í fyrra.
Þá fóru um Djúpið 1800 bílar til Ísafjarðar á þessu tímabili og miðað við þumalputtareglu Vegagerðarinnar má ætla að ekki færri en 4500 manns hafi heimsótt Ísafjörð á páskum.
Þá eru ótaldir allir þeir sem nýttu sér flug og aðra ferðamáta.
Í ár voru það eingöngu 300 bílar sem keyrðu þessa daga í átt til Ísafjarðar en fyrir utan almenna gesti Aldrei fór ég suður og Skíðaviku er mikil hefð meðal brottfluttra að dvelja vestra á páskum.
Hátíðin var stjörnum prýdd; Moses Hightower, Eivör Pálsdóttir, Mugison, Sigríður Thorlacius, KK, Lay Low, Helgi Björns og Auður voru meðal flytjenda sem sendu inn ljómandi tónlistarinnslög en einnig vöktu mikla athygli ungar og efnilegar tónlistarkonur á borð við K.Óla, Between Mountains, Salóme Katrínu og Árnýju Margréti. Þrjár síðarnefndu eru frá Ísafjarðarbæ.
Í bland við tónlistina birtust bráðskemmtilegar hugvekjur um ýmsa afþreyingu sem hægt væri að fremja um páska. Óttarr Proppé kynnti uppáhalds páskalesningu sína, Halldóra Geirharðs kenndi okkur að búa til ljúffeng páskaegg, Eiríkur Norðdahl flutti plokkfiskpassíu, Saga Garðarsdóttir hvatti fólk að fara í páskaplanka og séra Magnús Erlingsson sóknarprestur á Ísafirði kynnti sínar uppáhalds rokkplötur.
Árný Margrét vakti mikla athygli, hún hefur ekki oft komið fram hingað til og fjölmargir sem sáu hana í fyrsta sinn á laugardaginn síðasta. Sannarlega ástæða til að leggja nafnið á minnið.
https://www.youtube.com/watch?v=Z4pPbJGaa2U&feature=youtu.be
Páskaplanki Sögu:
https://www.youtube.com/watch?v=xFqCMSWVHUY&feature=youtu.be
Þakkir fær tónlistarmaðurinn Hermigervill sem gaf hátíðinni þemalag ársins, Íbízafjörð sem mun án alls vafa óma um ókomna tíð.
https://www.youtube.com/watch?v=wk45BdJncZ0