Leiðarljós á Flateyri

Þeir atburðir sem urðu á Flateyri í janúar sl. voru samfélaginu erfiðir. Það er erfitt þegar örygginu er ógnað, bæði atvinnu og ekki síst örygginu sem við öll viljum búa við innan veggja heimilins. En íbúarnir eru staðfastir í  að halda áfram og kölluðu eftir aðgerðum stjórnvalda. Það er því ánægjuefni að sjá að ríkisstjórnin hefur samþykkt að forsætisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti verður falið að annast framkvæmd og eftirfylgni aðgerða á Flateyri í samræmi við tillögur aðgerðahóps sem skipaður var í kjölfar snjóflóðanna.

Sértækar aðgerðir

Hér er um um að ræða nokkrar aðgerðir. Menntamálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, hefur skrifað undir samning sem tryggir rekstur Lýðskólans á Flateyri næsta skólaár. Þetta er mikilvægt skref og forsenda þess að skólinn haldi áfram í framtíðinni..

Aðrar aðgerðir lúta að öryggi íbúa og atvinnustarfsemi hvað varðar ofanflóð, bæði fyrir ofan byggðina á hafnarsvæði og á Hvilftarströnd. Síðast en ekki síst er fjármagni ætlað í nýsköpunar- og þróunarverkefni.

Samfélagsverkefni

Þótt að fjármagni sé beint sérstaklega inn á Flateyri, kemur það til með að nýtast öllu samfélaginu á Vestfjörðum. Hér eru verkefni sem tengjast þvert á stjórnsýslu og málaflokka og er því áhugaverð tilraun til að styrkja stoðir lítilla byggðarlaga.

Vestfjarðastofa fær það hlutverk að hýsa verkefnastjóra sem skal vera staðsettur á Flateyri. Á Vestfjarðastofu starfar öflugur hópur sem vinnur vel að upprunalegu markmiði hennar, þ.e.  að vinna að hagsmunamálum íbúa, sveitarfélaga og fyrirtækja á Vestfjörðum. Þar er veitt samræmd og þverfagleg ráðgjöf tengd atvinnu- og byggðaþróun í fjórðungnum.

Mín skoðun er sú, að með því að bæta verkefnastjóra í hópinn,  er hægt að tryggja að sú starfsemi sem byggð verður upp á Flateyri verði leiðarljós annarra byggðarlaga í uppbyggingu á því stóra verkefni sem við sem þjóð tökumst á við næstu mánuði.

Með sátt og samvinnu náum við að nýta þetta verkefni sem heildarverkefni í okkar góða samfélagi hérna fyrir vestan.

 

Halla Signý Kristjánsdóttir alþingiskona

DEILA