Þann 28. febrúar sl. var fyrsta Covid-19 smitið greint á Íslandi. Um mánuði síðar fór að bera á smitum hér á norðanverðum Vestfjörðum og mikill fjöldi fólks var farið að sýna sterk einkenni sjúkdómsins.
Þann 1. apríl sl. kom aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum saman og ákvað í samráði við sóttvarnalækni og almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra að grípa til hertra aðgerða vegna útbreiðslu veirunnar á norðanverðum Vestfjörðum. Þennan sama dag greindust 15 ný smit, fimm á Ísafirði og 10 í Bolungarvík.
Fjórum dögum síðar eða 5. apríl ákvað aðgerðastjórn að útvíkka hinar hertu aðgerðir þannig að þær næðu yfir alla norðanverða Vestfirði. Smitum hafði þá fjölgað á þessum fjórum dögum um 21 og voru orðin alls um 40 talsins.
Hinn 11. apríl ákvað aðgerðastjórn að framlengja hinar hertu aðgerðir, a.m.k. til 26. apríl nk., enda benti greining og rakning smita til þess að faraldurinn væri í verulegum vexti á norðanverðum Vestfjörðum. Til að mynda komu upp 11 ný smit þann 9. apríl.
Það er mat aðgerðastjórnar að hinar hertu aðgerðir, auk smitrakningar umdæmissóttvarnarlæknis Vestfjarða og rakningateymis almannavarna fyrir sunnan, samhliða mikilli beitingu sóttkvíar og einangrunar, séu að skila árangri.
Með smitrakningu má sjá að um er að ræða þrjár hópsmitanir sem virðast bundnar við norðanverða Vestfirði. Ný smit sem hafa verið að berast undanfarna daga falla nær undantekningarlaust inn í umrædda smithópa. Stök og órakin smit í umdæminu eru talin á fingrum annarrar handar. Það verður því að telja að með mikilli vinnu við greiningu, rakningu, sóttkví og einangrun og þess að almenningur hefur fylgt leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda og hinna hertu aðgerða hafi tekist að einangra þau smit sem upp hafa komið að lang stærstum hluta.
Þau smit sem munu berast á næstu dögum og niðurstaða skimunar deCODE á Ísafirði og í Bolungarvík munu eflaust gefa góðar vísbendingar um framhaldið. Það má því ætla að aðgerðastjórn geti ákveðið strax í næstu viku hvort rétt sé að viðhalda hinum hertu aðgerðum eða hvort unnt sé að slaka á þeim eftir 26. apríl nk. og þá með hvaða hætti það verði gert.
Á þessu stigi máls er ómögulegt að segja hvort takmarkanir hér á norðanverðum Vestfjörðum verði þær sömu og á landinu öllu eins og þær hafa verið ákveðnar 4. maí nk.
Fyrir hönd aðgerðastjórnar almannavarna á Vestfjörðum,
16. apríl 2020,
Karl Ingi Vilbergsson lögreglustjóri.