Svipmyndir við tímamót úr miðborg Ísafjarðar
I.
Það sem gerir bæ að borg er vel skipulagður, fallegur og umfram allt vel mannaður miðbær. Slíkum miðbæ hefur Ísafjörður státað af um langan aldur. Það er enginn gorgeir þegar ég segi að Ísafjörður hefur borgarbrag. Í það minnsta finnst mér það og það dugar mér.
II.
Það var dásamlegt að alast upp spölkorn frá miðbænum og hafa allt innan seilingar. Að alast upp bak miðborgar spillir manni talsvert. Maður lítur á þessi lífsgæði sem sjálfsagðan hlut. Hvert sem leiðir liggja er miðbær Ísafjarðar ávallt mælikvarðinn.
En hvar liggja mörk miðbæjarins? Svörin ráðast af uppruna þess er svarar. Einnig af því hversu duglegur viðkomandi er að ganga. Sem sporlatur Fjarðarstrætispúki fell ég undir síðara viðmiðið. Í mínum huga markaði horn Hafnarstrætis og Pólgötu efri enda miðbæjarins. Að fara upp í Landsbanka var ferð út fyrir mörk miðbæjarins. Það fór síðan eftir samfylgdarmanni, hugarástandi, aldri og veðri hvort neðri hlutinn endaði á horni Silfurgötu eða neðar. Í skoðunarferðum í búðarglugga með móður minni náði miðbærinn að Hannyrðabúðinni hjá Jönu og Bubbu. Um tvítugt færðust mörkin niður að Aðalstræti 22. Neðar náði miðbærinn aldrei. Ferð á pósthúsið var alltaf langferð. Svo glöggt stóðu mörk miðbæjarins i mínum huga að búðir handan Hafnarstrætis voru á jaðrinum. Auðvitað fór maður í Neista, sem var jú í leiðinni niður á Bæjarbryggju. Upp með Neista mátti í undantekningartilfellum feta þrönga gangstéttina ætti maður leið til Jónasar Magg eða í blómabúðina til Ástu hans Arngríms.
III.
Það sem endanlega staðfestir að miðbær verður að miðborg er búseta þeirra er stunda þar verslun og viðskipti. Það próf stóðst Ísafjörður svo sannarlega. Hvort sem það voru kaupmenn eða handverksmenn. Flestir bjuggu þeir í miðbænum. Verslun eða verkstæði á jarðhæðinni og fjölskyldan bjó á efri hæðum. Þjónustan og þjónustulundin var líka eftir því. Fólk var jú oftast til staðar. Miklu nær að segja alltaf.
IV.
Hver búð og hver iðnaður hafði sitt einkenni. Mótað af þeim er þar réði ríkjum og þeim sem þar unnu. Líka kannski af þeim er þangað sóttu. Það var ekki bara útlit búðanna sem var misjafnt. Líka lyktin. Ennþá dugar mér að lygna aftur augunum og rifja upp í huganum spássitúr í logninu á köldum miðsvetrardegi. Þá fyllast vit mín af lyktinni. Ég treysti mér enn til þess að rata blindandi um Austurveginn og Hafnarstrætið og segja hvar ég er staddur hverju sinni. Bara vegna lyktarinnar. Mjólkurbúðin og Kaupfélagsbúðirnar höfðu ekki sömu lyktina og þá ekki Finnsbúð. Iðunnarbúð var auðþekkt frá klæðskerabúðunum. Lyktin frá Ella skó var engu lík. Að ekki sé minnst á Þórð úrsmið eða Ólafs- og síðar Búbbabakarí. Af jafn líkum rekstri og Bókabúð Matta Bjarna og Bókhlöðunni treysti ég mér til þess að greina muninn. Dettur einhverjum annað í hug en að það hafi verið notaðar ólíkar tegundir af góðri lykt í hárið á rakarastofum bæjarins og þar með hafi góða lyktin sem frá þeim barst í frostinu verið mismunandi? Það voru heldur ekki sömu mennirnir sem stóðu inni hjá Finni Magg og Jonna Magg. Yfirbragðið ólíkt og eflaust framsetning umræðuefnanna líka. Prófaðu nú lesandi góður að halla þér aftur, loka augunum og láta lyktarskynið leiða þig um bæinn.
V.
Eitt af einkennum okkar Íslendinga eru minningargreinar í blöðunum. Það er nú einhvern veginn svo að menn þurfa að vera horfnir af heimi hér til þess að við sjáum ástæðu til þess að segja hug okkar um verðleika þeirra. Sumum finnst meira að segja gott að ávarpa þá látnu í þessum merkilegu greinum. Hvort það virkar kemst maður vonandi ekki að, í bráð að minnsta kosti. Ef eitthvað fer hins vegar miður í fari manna, á seinni árum, höfum við alla samfélagsmiðlana til þess að koma þeim göllum á framfæri og mörg okkar spara sig ekki á þeim vígvelli.
Nú hefur þetta ekki alltaf verið svo. Hér á árum áður voru í blöðum birtar afmælisgreinar. Einhvern veginn finnst mér það, þrátt fyrir allt, manneskjulegra að þakka fyrir sig jafnóðum og þó það sé jafnvel ekki oftar en á tíu ára fresti á prenti. Trúlega fór landinn offari í þessum afmælisgreinum og þær lögðust af. Það var kannski ekki greinin, sem Jón skattstjóri skrifaði í Ísfirðing um Baldur Jónsson á Seljalandi þrítugan sem var kornið sem fyllti þann mæli. Trúlega var hún samt ein af þeim þó allt sem þar stendur hafi verið satt og rétt.
VI.
Þau eru mörg sporin sem liggja eftir samborgara okkar í miðbæ Ísafjarðar. Ekki síst spor þeirra er þar hafa starfað alla sína starfsævi. Því er þetta nú allt rifjað upp hér að á þessu ári standa tveir af útvörðum miðbæjarskilgreiningar minnar á tímamótum. Báðir hafa þeir hvor á sinn hátt markað djúp spor þó hvorugur þeirra sé þungstígur. Báðir fyrirferðarmiklir í bæjarlífinu um áratugaskeið ekki síst utan síns hefðbundna opnunartíma ef svo má að orði komast.
VII.
Bókhlaðan var iðandi mannlífspottur. Þangað áttu flestir leið. Þó að hún hafi lengstum ekki verið stór í sniðum í fermetrum talið var samt með ólíkindum hvað hún rúmaði af nauðsynjavörum. Þar réð ríkjum í meira en hálfa öld bóksalinn knái, Gulli Jónasar. Þrátt fyrir alkunna hógværð hans varð manni snemma ljóst að hann vissi allt. Þjónustulundin var líka einstök. Ef hluturinn lá ekki frammi í búðinni stökk hann af stað. Annað hvort í kjallarann eða uppá efri hæðirnar. Kom að vörmu spori með það sem vantaði. Svo bjó hann á efstu hæðinni. Mikið gæfi ég fyrir útreikning á því hversu margar ferðir Gulli hefur farið upp og niður stigana í Bókhlöðunni á þeim góða mannsaldri sem hann fór þar um. Hann var líka laginn að ráða til sín starfsfólk. Þar var ávallt valinn maður í hverju rúmi. Að ekki sé minnst á aðventuna þegar Lára og afkomendurnir bættust við í afgreiðslunni.
En bóksalinn var ekki bara bóksali. Þau eru óteljandi félögin sem hann hefur lagt lið. Hann var formaður undirbúningsnefndar að stofnun menntaskóla á Ísafirði. Hann var lengi í stjórn Tónlistarfélagsins. Hann var í undirbúningsnefnd að uppsetningu fyrstu skíðalyftunnar á Ísafirði. Gott ef hann var ekki slökkviliðsmaður líka. Svona væri hægt að telja upp lengi lengi. Svo var hann líka söngvari. Söng með kórum um áratuga skeið. Ekki síst í Kirkjukór Ísafjarðarkirkju. Umfram allt var hann ávallt tvennt. Skáti og Harðverji.
VIII.
Rakarastofan var sagnabrunnur. Hárskerðing var einungis lítill hluti upplifunar ferðarinnar þangað. Í stólnum var maður kominn í annan heim. Sagnameistarinn Villi Valli hafði þá náttúru að geta á augabragði lagað sögur sínar að veruleika þess er í stólnum sat. Örlítið sveigðar en allar sannar. Aldrei sú sama tvisvar. Og hláturinn hans maður lifandi. Hann hló með öllum líkamanum. Dvölin í stólnum var alltaf mannbætandi og jafnvel hinir mestu drumbar í lundarfari stigu úr stólnum talsvert léttari. Ekki dofnuðu sögurnar þegar Sammi rakari skaut inn einu og einu orði af sinni kostgæfni. Þegar dró að merkisdögum á dagatalinu eða kosningum varð atgangurinn í umræðum milli viðskiptavina og rakara slíkur að merkilegt er í raun að ekkert eyra skyldi falla í valinn. Mér hefur alltaf þótt vænt um söguna af því þegar ég kom eitt sinn sem oftar á rakarastofuna. Þá voru umræður um nánara samstarf við evrópuríkin í hámarki. Sem ég óskaði eftir klippingu horfði rakarinn sposkur á mig og sagðist ekki geta komið mér að strax því vegna höfuðstærðar minnar þyrfti fyrst að bjóða verkið út á evrópska efnahagssvæðinu.
Þegar skærin hvíldust á kvöldin og um helgar fór rakarinn að kenna tónlist, stjórnaði lúðrasveit, stofnaði og stjórnaði danshljómsveitum, gerðist tónskáld og ekki síst spilaði hann jazz. Í meira en mannsaldur hefur hann sem tónlistarmaður verið til staðar fyrir samborgara sína þegar þeir hafa lyft sér upp eða fagnað tímamótum. Enginn hefur spilað heilt bæjarfélag oftar og lengur upp úr skónum en hann. Þegar rakarinn hvíldi tónlistarmanninn tók listmálarinn við og er þá ekki allt talið um hæfileika og gjörðir rakarans.
IX.
Afköst þessara manna segja í það minnsta eitt. Bakland þeirra hefur verið ofurtraust. Það hafa þær skapað eiginkonurnar Guðný Magnúsdóttir og Lára Gísladóttir. Þar hefur lánið leikið við þá. Að auki svo einstaklega lánsamir að koma ásamt konum sínum fjölda barna til manns. Börnum sem hvert um sig bera foreldrunum fagurt vitni.
Með hógværð sinni og glaðlyndi, fórnfýsi, þjónustulund og hæfileikum eru rakarinn og bóksalinn dæmi um allt það besta sem verslunar- og handverksmenn í miðbæ Ísafjarðar hafa boðið samborgurnum sínum um langan aldur. Með því tryggt að miðbærinn stendur framar mörgum miðborgum.
Leiðir þeirra hafa skarast oftar en í fljótu bragði virðist. Það mátti best sjá að morgni sunnudags í logninu og nýfallinni mjöllinni. Þegar bóksalinn gekk til söngs í Ísafjarðarkirkju og var kominn til móts við Bókabúð Matthíasar. Mættu þar honum spor rakarans frá því um nóttina þegar hann kom gangandi heim úr Gúttó eftir dansleikjahald. Svona er nú lífið einfalt þrátt fyrir allt.
X.
Bóksalinn varð níræður þann 28.febrúar og ef guð lofar nær rakarinn þeim tímamótum 26.maí. Ég vil með þessum miðborgarbrotum nota gamla lagið og þakka þeim í lifanda lífi skerf þeirra til bætts mannlífs á Ísafirði. Um páskana vonaðist ég til þess að rekast á þá báða, Gunnlaug Friðrik Jónasson og Vilberg Valdal Vilbergsson, á förnum vegi og færa þeim kveðjur mínar en það bíður betri tíma. Sjáumst um síðir, heima.
Ég vona að þeir fyrirgefi mér skrifin.
Gleðilega páska.
Halldór Jónsson