Í tilkynningu frá Aðgerðastjórn almannavarna á Vestfjörðum koma fram þessar ábendingar:
Aðgerðastjórn minnir á heimasíðuna covid.is, en þar er að finna allar nauðsynlegar upplýsingar um sjúkdóminn og hvernig fólki ber að haga sér í sóttkví og/eða einangrun. Sóttkví er notuð þegar einstaklingur hefur mögulega smitast af sjúkdómi en er ekki með einkenni. Einangrun á við sjúklinga með einkenni smitandi sjúkdóms.
Meginreglan er sú að ef einstaklingur er í sóttkví þá skal hann halda sig heima og ekki fara út af heimilinu nema brýna nauðsyn beri til, s.s. til að sækja nauðsynlega læknisþjónustu. Hann má ekki fara í verslanir eða á aðra þá staði sem almenningur hefur aðgang að, hann má ekki fara til vinnu eða í skóla, hann má ekki fá til sín gesti, hann má ekki dvelja í sameiginlegum rýmum fjölbýlishúsa, s.s. þvottahúsum eða stigagangi. Hann má á hinn bóginn fara út í garð við heimili sitt eða út á svalir (gæta þarf 2ja metra fjarlægðar við aðra), hann má fara í bíltúr á sínum einkabíl og í gönguferðir þar sem ekki er hætta á að hann rekist á annað fólk.
Á norðanverðum Vestfjörðum er í gildi svokallað 5 manna samkomubann. Í því felst að ekki fleiri en fimm einstaklingar mega koma saman í sama rými hverju sinni. Þessi tilmæli eiga einnig við um einkaheimili. Nú er því ekki tíminn fyrir stórfjölskyldan að koma saman. Við ferðumst innanhúss um páskana.
Grunn- og leikskólum hefur verið lokað um óákveðinn tíma á norðanverðum Vestfjörðum vegna covid-19. Sú aðgerð er harla tilgangslaus ef börnin safnast saman í leik sínum. Aðgerðastjórn brýnir fyrir foreldrum að takmarka samgang barnanna eins og unnt er.
Covid-smitum fjölgaði um fjögur síðasta sólarhring, tvö á Ísafirði og 2 í Bolungarvík. Alls eru nú skráð 49 smit í umdæminu öllu. Í sóttkví eru 323 einstaklingar, langflestir í Bolungarvík, 265 einstaklingar hafa lokið sóttkví. Af þeim 49 sem hafa verið greindir með covid-19 hafa fjórir náð bata.
Mikill fjöldi sýna bíður niðurstaðna og í dag voru tekin 32 sýni til rannsóknar.
Fólk sem finnur til einkenna skal halda sig heima og hafa símasamband við sína heilsugæslu, eða í síma 1700 eða heilsuvera.is Rauði Kross Íslands veitir fólki í sóttkví og einangrun aðstoð í síma 1717.
Frekari upplýsingar verða veittar í gegnum netfangið yfirstjorn-lvf@logreglan.is og á Facebook-síðu lögreglunnar á Vestfjörðum.