Hafsjór af hugmyndum – Kampi

Rækjuverksmiðjan Kampi á Ísafirði var stofnuð árið 2007 en áður höfðu verið rækjuvinnslur í húsnæðinu í áratugi.  Fyrirtækið vinnur helming allrar rækju sem veidd er á Íslandsmiðum en í heildina er unninn þriðjungur af allri rækju sem unnin er á Íslandi.

Rækjuvinnsla er tæknilega mjög krefjandi og hefur Kampi leitast við að innleiða nýjustu tækni í vinnsluferlinu jafnóðum.  Lokaafurðin soðin rækja er tilbúin til neyslu en við framleiðsluna eru gerðar miklar kröfur til hreinlætis og krefst vinnsluferlið mjög agaðra vinnubragða.

Rækjan er seld á kröfuhörðustu mörkuðum í Evrópu og er verið að vinna að markaðssetningu í Bandaríkjunum. Kampi framleiðir bæði stærri pakkningar fyrir heildsölur og smápakkningar í smásöluverslanir.

Rækjuskelin hjá Kampa er sett í mjöl en fyrirtækið er með rækjumjölframleiðslu í Bolungavík.  Rækjuskel er mjög auðug af næringarefnum og litarefnum sem hægt er að vinna í enn verðmætari afurðir en rækjumjöl.

Það er fjöldi tækifæra á sviði líftækni, sjálfbærni og sjálfvirkni í rækjuvinnslunni sem falla vel að hugmyndum verkefnisins “Hafsjó af hugmyndum” og því er kjörið tækifæri að nýta styrkina sem byr undir báða vængi til að komast í gang með nýsköpun á þessum sviðum.

 

Í þessu myndbandi er hægt að kynnast starfsemi Kampa: https://www.youtube.com/watch?v=Ds_-KZugbCM

Hér er hægt að kynna sér  nýsköpunarkeppnina og háskólaverkefnin nánar: https://www.vestfirdir.is/is/verkefni/hafsjor-af-hugmyndum

Verkefnið fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði sem hluti af Sóknaráætlun og er unnið í samstarfi við Vestfjarðastofu og Nýsköpunarmiðstöð Íslands.

 

DEILA