Kröfu 10 af 16 eigendum jarðarinnar Drangavíkur á hendur Árneshreppi og Vesturverk ehf var vísað frá dómi í gær. Landsréttur tók þar með sömu afstöðu og Héraðsdómur Vestfjarða.
Kærendur kröfðust þess að fellt yrði úr gildi deiliskipulag Árneshrepps frá 2019 sem sveitarstjórnin samþykkti vegna væntanlegrar Hvalárvirkjunar og kröfðust þess einnig að fellt yrði úr gildi framkvæmdaleyfi Vesturverks ehf til undirbúningsframkvæmda, þ.e. vegagerðar og efnistöku.
Kröfuna gera kærendur með þeim rökum að virkjunarsvæðið sé innan landamerkja Drangavíkur og í námunda við þau og þar með eigi þeir beinna hagsmuna að gæta.
Þunginn í málatilbúnaðinum hvílir því á þeirri staðhæfingu kærenda að landamerki Drangavíkur séu önnur en fram hafa komið við undirbúnings málsins í rúman áratug. Af hálfu Vesturverks ehf var bent á að samningar um vatnsréttindi hafi verið gerðir við eigendur Engjaness og Ófeigsfjarðar fyrir rúmum áratug. Í framhaldinu fór fram málsmeðferð með viðeigandi með auglýsingum, kynningu og samráði við hagsmunaaðila. Kærendur hafi ekki gert neina athugasemd við landamerki né haldið því að fram að framkvæmdir myndu vera á þeirra landi fyrr en síðastliðið sumar.
Um þetta meginatriði segir Landsréttur það sama og Héraðsdómur Vestfjarða að ágreiningur um landamerki milli jarða verði ekki leystur í þessu máli, þar sem aðilar að deilunni, eigendur Engjaness og Ófeigsfjarðar, eiga ekki aðild að dómsmálinu og geta því ekki komið við sínum vörnum við kröfum eigendanna 10 að Drangavík.
Það að efna til ágreinings í fyrrasumar á lokastigi málsins jafngildir ekki því að viðkomandi eigi landið eða hafi sannað eignarhald sitt. Meðan sú sönnun liggur ekki fyrir eru kærendur ekki landeigendur og teljast því ekki beinir hagsmunaaðilar, sem er svo forsenda þess að þeir geti höfðað málið. Þess vegna var málið vísað frá dómi.
Sömu aðilar eiga annað kærumál um sama efni fyrir úrskurðarnefnd um umhverfis- og auðlindamál. Nefndin frestaði afgreiðslu málsins meðan dómstólar fjallar um málið og næsta víst er að sú kæra verður sjálfdauð verði þetta endaleg niðurstaða dómstóla.
Forðast að fá dæmt um ágreininginn
Þessi skýra niðurstaða beggja dómsstiganna segir að þarf fyrst að dæma í landamerkjaágreiningnum. Til þess að svo verði þurfa þá kærendurnir að höfða mál á hendur þeim sem þeir deila við, eigendum jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar og stefna þeim og leggja kröfur sínar fram um landið sem þeir telja sig eiga.
Það sem er athyglisverðast við framgöngu kærendanna 10 er að þeir hafa ekki farið með landakröfu sína fyrir dóm. Þeir virðast forðast að láta skera úr um kröfu sína. Kærur þeirra annars vegar fyrir dómstólum og hins vegar fyrir úrskurðarnefndinni eru þannig gerðar að þeir sem kröfunum er beint gegn, landeigendur Ófeigsfjarðar og Engjaness geta ekki komið við vörnum, þar sem þeir eru ekki aðilar dómsmálinu eða kærumálinu. Þeim er ekki stefnt heldur Árneshreppi og Vesturverki, er hvorugur þeirra er eigandi landsins sem um er deilt. Landsréttur segir beinlínis að ekki verði leyst úr ágreiningnum án aðildar þeirra sem deilt er við.
Þessi leið kærenda er eiginlega óheiðarlegur málatilbúnaður, ef ekki beinlínis óheiðarleg vegferð þá næsti breiði vegur við. Hernaðaráætlunin er að fá dómstóla til þess að samþykkja eignarhald sitt á landi án þess að gagnaðilinn fái tækifæri til þess að verjast og fá svo í framhaldinu Hvalárvirkjun dæmda úr leik.
Spurningin sem við blasir er þessi: af hverju hafa þessir landeigendur ekki farið með landamerkjakröfu sín fyrir dómstóla. Þeirri spurningu hefur ekki verið svarað en augljósa svarið sem virðist blasa við er að þeir telja ekki nægilegar líkur til þess að vinna það mál. Í þeirri stöðu hafi því orðið ofan á sú baráttuaðferð gegn Hvalárvirkjun, því um það snýst málið, að skapa efasemdir með nýjum staðhæfingum og kröfum og nota allar tiltækar leiðir til þess að tefja, draga á langinn og valda sveitarstjórn og framkvæmdaaðilum kostnaði og öðrum mögulegum óþægindum. Dómsmálið er bara einn angi af skipulögð ferli gegn virkjuninni.
Ólýðræðisleg framganga
Sé þetta mat nærri lagi þá er vert að vekja athygli á því að þá er augljóst að andstæðingar virkjunar virða ekki leikreglurnar sem settar hafa verið um virkjanaframkvæmdir. Þeir una ekki ákvörðuninni, sem sveitarstjórn hefur tekið eftir margra ára langt ferli. Þar komu margir opinberir aðila að og allir sem vildu gátu oft komið að sjónarmiðum sínum og athugasemdum. Í stað þess að taka því að niðurstaðan varð önnur en þeir vildu er farið af stað í herferð þar sem öllum ráðum er beitt til þess að koma í veg fyrir að niðurstaðan nái fram að ganga.
Ágreiningur um sem flest efni, kærur, dómsmál, fjölmiðlaupphlaup og stofnun málamyndasamtaka með meira og minna sama fólkinu er andlýðræðisleg framganga af því að tilgangurinn er að þeir sem eru í minnihluta hafi samt sitt fram með því að brjóta á bak aftur vilja meirihlutans.
Það er lykilatriði í lýðræðislegu þjóðfélagi að aðilar virði lögmætar ákvarðanir. Þegar það er ekki gert er það meðvituð atlaga að sjálfu grunnatriðinu.
Vestfirðingar hafa undanfarin síðustu án fengið að kynnast fámennum en skipulögðum hópum sem telja sig hafna yfir leikreglurnar ef niðurstaðan er ekki þeim að skapi.
Þetta er hættumerki ekki bara fyrir Vestfirðinga heldur fyrst og fremst fyrir þjóðfélagið sjálft.
-k