Sveitastrákur í stórborginni

Þegar ég flutti til Reykjavíkur var ég lítill sveitastrákur frá Ísafirði og átti erfitt með að átta mig á hvernig lífið í stórborginni virkar. Ég hafði engin tengsl við atvinnulífið og gat ekki ímyndað mér hvar ég ætti að sækja um vinnu eða hvar væri best að versla í matinn enda vanur aðeins tveimur valkostum heima fyrir vestan. Ég var lítill fiskur í stórri tjörn. Vaka hélt kynningarfund í byrjun skólaárs og ég ákvað að kíkja þangað. Þá vissi ég lítið sem ekkert um hvað Vaka stendur fyrir eða hvað fylkingin sjálf gerir. Þau tóku mér með breiðu brosi og útskýrðu fyrir mér allt sem ég spurði um og áður en ég vissi af fór ég að mæta á alla viðburði Vöku. Þau tóku mig inn og það skipti engu máli hvaðan ég er eða hver ég er. Ég er alinn upp með annan fótinn fyrir vestan og hinn úti í Ungverjalandi, en innan Vöku leið mér vel og þar var ég velkominn. Ég vissi að ég væri á réttum stað. Þetta var eins og að eignast nýja fjölskyldu.

 

Ef þú býrð út á landi og stundar nám við Háskóla Íslands, þá kannastu örugglega við þá löngun að fara heim í rólegheitin, til ættingja og vina, en af ákveðnum ástæðum verður þú að vera í borginni til þess að missa ekki af fyrirlestrum og fleiru. Við hjá Vöku viljum fá upptökur af fyrirlestrum allt skólaárið, ekki einungis þegar skólahald er slegið af vegna heimsfaraldurs. Að geta horft á fyrirlestra á netinu myndi hjálpa gríðarlega mörgum, ekki einungis fjarnemum sem búa út á landi eða í útlöndum heldur líka þeim sem eru veikir heima eða komast ekki vegna veðurs svo eitthvað sé nefnt.

 

Ég hef oft lent í því að flugi er aflýst og vegum lokað. Það væri svo miklu betra ef maður hefði alltaf aðgang að upptökum á fyrirlestrum. Til að mynda hefur menntavísindasvið náð að framkvæma þetta ágætlega, getum við á verkfræði- og náttúruvísindasviði ekki gert það líka? Þurfum við í raun að missa af fyrirlestrum?

 

Elsku landsbyggðarfólk (og aðrir), ég mun gera mitt besta til að koma í veg fyrir það að búseta ykkar og uppruni hindri ykkur í námi á einhvern hátt.  Leyfið mér að vera ykkar rödd í Stúdentaráði Háskóla Íslands 2020-2021.

 

-Hilmar Adam Jóhannsson

Hilmar er nemi í jarðeðlisfræði og skipar 1. sæti á lista Vöku á verkfræði- og náttúruvísindasviði fyrir stúdentaráðskosningar Háskóla Íslands 2020.

DEILA