Hér er samantekt af því helsta sem gerðist í vikum 11 & 12 við vinnu Dýrafjarðarganga.
Flestir af starfsmönnum Metrostav fóru heim vegna Covid 19 veirunnar. Unnið hefur verið í því að fá innlenda starfsmenn til að fylla í þeirra skörð. Starfsmenn Vestfirskra verktaka hafa tekið upp þráðinn við steypuvinnu og stefnt er að því að fá mannskap á staðinn til að klára sprautusteypu yfir klæðingar.
Eingöngu á eftir að sprautusteypa yfir lítinn hluta af vatnsklæðingum og þegar þeirri vinnu er lýkur er allri vinnu sem viðkemur vatnsklæðingum lokið.
Þrjú neyðarrými hafa verið steypt og steypuvinna er í gangi í síðustu tveimur neyðarrýmunum.
Haldið var áfram að keyra fyllingar og neðra burðarlag í veginn í göngunum. Haldið var áfram með að setja upp festingar fyrir skilti í göngunum.
Haldið var áfram að leggja ídráttarrör fyrir rafmagn og stýristrengi meðfram hægri vegöxl og í tæknirýmin. Haldið var áfram með að grafa skurð fyrir 132 kV jarðstreng í vinstri vegöxl. Vinna hélt áfram við uppsetningu á búnaði í tæknirýmum og uppsetningu á festingum fyrir strengstiga og strengstiganum sjálfum sem mun liggja eftir endilöngum göngunum.
Á meðfylgjandi myndum má sjá steypta þverun fyrir ídráttarrör, gröft á skurði fyrir ídráttarrör og vinnu við neyðarrými.
Fyrir hönd framkvæmdaeftirlits Dýrafjarðarganga
Baldvin Jónbjarnarson