Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður Arnarlax hf segir að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar sem kynnt var í gær, „staðfestir að visindin eru okkar megin og ánægjulegt að sjá Hafró leggja til aukningu frá 71.000 tonnum yfir í 106 þúsund tonn.“
Hann segir einng jákvætt að aukið jafnvægi sé í heimildunum milli Vestfjarða og Austfjarða. Skiptingin er sú að ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar heimilar 64.500 tonna lífmassa á Vestfjörðum og 42.000 tonn á Austfjörðum, en tölurnar voru áður 50.000 tonn á Vestfjörðum og 21.000 tonn á Austfjörðum.
Kjartan segist hins vegar óttast að það muni taka stofnanir langan tíma að vinna úr umsóknunum og bendir á að gríðarmikið álag hafi verið á starfsfólkinu. „Leyfisferlarnir virðast því miður geta tekið mörg ár.“
„Við hjá Arnarlaxi einbeitum okkur núna að þeim áskorunum sem við öll stöndum frammi fyrir en munum greina stöðuna með ráðgjöfum okkar á næstu dögum.“