Á síðasta ári fóru um 76% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða til landa í Evrópu (radarinn.is). Þar af er Bretland stærsti markaðurinn með um 17% hlutdeild og Frakkland sá næst stærsti með 12% og hefur verið að vaxa hraðast á síðustu árum. Spánn er þriðji stærsti markaðurinn í Evrópu með rúmega 8% hlutdeild.
Kína , sem var sjöundi stærsti markaðurinn fyrir sjávarafurðir með 5% hlutdeild á síðasta ári og vöxtur að verða með eldisafurðir á seinni hluta ársins, var fyrsti markaðurinn sem lokaði að mestu fyrir sjávarafurðir. Lokun fyrir ferskar afurðir með farþegaflugi, sem er mikilvægasta flutningsleiðin héðan inná Bandaríkjamarkað, fór að hafa áhrif í síðustu viku. En Bandaríkjamarkaður er þriðji stærsti markaðurinn fyrir sjávarafurðir með tæpa 9%. Þessu var að hluta mætt með fragtflugi og leiðum gegnum Bretland en óvíst er með framhaldið á þeirri dreifingarleið.
Ákvarðanir stjórnvalda í ýmsum ríkjum Evrópu, svo sem Frakklandi og Spáni, um bann við samkomum og jafnvel í sumum tilvikum enn harðari aðgerðum er þegar farið að hafa alvarlegar afleiðingar fyrir sjávarútveginn.
Eftirspurn erlendis eftir fiski mun verða fyrir töluverðu höggi næstu daga þegar áhrifin af samkomubanninu eru komin betur fram. Á sumum af okkar mikilvægustu mörkuðum í Evrópu hefur verið takmarkað og í sumum tilvikum lokað fyrir veitingahúsarekstur sem er mikilvægur markaður fyrir okkar hágæða sjávarafurðir. Einnig hefur lokun skóla áhrif á fiskneyslu þar sem samhliða loka mötuneyti og það á líka við um marga fjölmenna vinnustaði.
Áhrif þessa sérstaklega á ferska hluta sjávarafurða er þegar farið að gæta og viðbúið, samkvæmt heimildum Bæjarins besta, að það komi á fullu fram í næstu viku. Sami viðmælandi benti þó á að líklegt sé að um tímabundið ástand sé að ræða þar sem neysla á matvöru dregst ekki saman þó svo að dreifileiðir og neyslumunstur fari tímabundið í annan farveg.
Eins og staðan er á meginlandi Evrópu þá hafa neytendur í mörgum löndum þann eina kost að kaupa matvöru í verslunum og það er enn mikilvæg dreifingarleið fyrir sjávarafurðir. Það veitir þeim fyrirtækjum sem eru í framleiðslu á neytendavörum eða með beinan aðgang í slíkar dreifileiðir möguleika á næstu dögum eða vikum meðan þetta ástand varir.
Viðbrögðin eru þegar farið að koma í ljós. Verð á fiskmörkuðum hér innanlands lækkaði töluvert strax í gær og skipstjóri sem rætt var við í gær var ekki bjartsýnn á framhaldið. Þá eru fréttir um að stóru sjávarútvegsfyrirtækin séu byrjuð að draga úr veiðum ísfisktogaranna, en það hefur ekki verið staðfest.
Miðað við áætlanir um þróun veirufaraldursins í Evrópu og Bandaríkjunum má þess vænta að þessar aðgerðir geti staðið yfir í nokkurn tíma áður en draga fer úr faraldrinum og slakað verði á samkomubanni og hindrunum í flutningi ferskra sjávarafurða með farþegaflugi.
Það þýðir að viðbúið er að næstu vikur verði erfiðar fyrir sjávarútveginn með umtalsverðum samdrætti í sölu afurða á erlendum mörkuðum.
-k