Fuglavernd mun birta eina færslu á dag um fugl dagsins meðan á samkomubanni stendur. Þessi skemmtilegi leikur hófst í gær og þá var það lóan sem var fugl dagsins.
“Lóan er komin að kveðja burt snjóinn, svo okkur fannst alveg tilvalið að byrja á henni” – segir Dögg Matthíasdóttir, markaðs- og samskiptafulltrúi Fuglaverndar.
Lóan er ein af 25 ábyrgðartegundum okkar Íslendinga, en það þýðir að um 20% af Evrópustofni viðkomandi tegundar nýti Ísland til varps eða komi hér við á ferðum sínum.
“Með þessu viljum við leggja okkar af mörkum, til að stytta fólki stundir og kannski aðeins að dreifa huganum, þó ekki sé nema í stutta stund á hverjum degi. Ef samkomubannið stendur í fjórar vikur þá komumst við yfir 28 fuglategundir alls, við þurfum þá að velja einhverjar þrjár sem eru ekki í hópi ábyrgðartegunda. Hægt verður að koma með ábendingar á Fésbókarsíðunni. Ef samkomubannið stendur lengur, þá finnum við bara til fleiri fuglategundir, það er af nógu að taka”.
Fuglavernd eru frjáls félagasamtök um verndun fugla og búsvæði þeirra. Fuglavernd telur um 1300 félagsmenn. Fuglavernd er aðili að samtökunum BirdLife International sem vinna að verndun fugla og náttúrusvæða í 120 löndum.