Rauði krossinn í Barðastrandarsýslu er virk deild með mörg járn í eldinum.
Fjöldi sjálfboðaliða vinnur ýmis verkefni í þágu samfélagsins og er verkefnum stöðugt að fjölga og verða sífellt fjölbreyttari.
Meðal verkefna sem deildin hefur sinnt um árabil eru hefðbundin Rauða kross verkefni eins og neyðarvarnir þar sem opnun fjöldahjálparstöðva á Patreksfirði, Bíldudal og Tálknafirði er eitt af hlutverkum deildarinnar í almannavarnakerfi landsins, kennsla í skynidhjálp, fatasöfnun, heimsóknavinir og fjölmenningarleg verkefni.
Deildin fór af stað með tvö ný verkefni nýlega sem koma sér vel fyrir marga og hafa veitt mikla ánægju í samfélaginu. Verkefnin heita Karlar í skúrum og Nytjamarkaður.
Nytjamarkaðurinn er í húsnæði Rauða krossins og getur fólk komið með föt og hluti sem það er hætt að nota og aðrir geta keypt á vægu verði.
Deildin fær einnig föt send frá Rauða krossinum á höfuðborgarsvæðinu, þannig að úrvalið er fjölbreytt.
Hitt verkefnið ekki síður merkilegt heitir Karlar í skúrum. Skúrinn eða húsnæðið er staðsett á hafnarsvæðinu á Patreksfirði. Það er opið fyrir alla karlmenn á öllum aldri. Þar geta þeir unnið að ýmsum verkefnum sem þeir sjáfir velja saman eða einir sér.
Húsnæðið sem eitt sinn var beitningaraðstaða og frystigeymsla er í eigu Vesturbyggðar Karlarnir innréttuðu húsið sjálfir og viðuðu að sér verkfærum og vélum, auk þess sem Rauði krossinn kom með framlag.
Rauði krossinn átti frumkvæðið að því að koma verkefninu af stað og enginn þiggur laun, allt er gert í sjálfboðavinnu. Verkfæri og vélar hafa ýmist verið gjafir eða eru í eigu karlanna sjálfra. Karlarnir taka fagnandi á móti verkfærum og vélum sem aðrir eru hættir að nota.
Hugmyndin að verkefninu er fengin frá Ástralíu sem er undir nafninu Men in Sheds sem byrjaði fyrir 20 árum og hefur farið víða. Í dag eru m.a. yfir 400 skúrar á Írlandi svo dæmi sé tekið. Skúrinn á Patreksfirði er sá þriðji í röðinni á Íslandi en skúrar eru staðsettir í Hafnarfirði og Breiðholti.
Nú er að sjá hvort karlar á norðanverðum Vestfjörðum taki sér þá í Vesturbyggð til fyrirmyndar gangi til liðs við Rauða krossinn og komi upp aðstöðu á því svæði. Ætla má að húsnæði mundi vera til staðar ef vel væri að gáð.