Mannfjöldaþróun á landinu hefur verið með ákaflega mismunandi hætti á landinu undanfarin ár. Stóru línurnar eru þó að fólki hefur fjölgað mikið á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess.
Nokkur stöðugleiki hefur verið í mannfjöldaþróun á Akureyri og í allra næsta nágrenni og á mið-Austurlandi.
Víðast hvar annars staðar hefur fólki fækkað, með undantekningum þó. Það er meðal hlutverka Byggðastofnunar að fylgjast með þessari þróun, enda ein af grunnforsendum varðandi gerð áætlana um þróun og styrkingu byggða á Íslandi.
Á vefsíðu Byggðastofnunar má með einföldum hætti skoða þróun byggðar á Íslandi frá 1998-2019 hvað varðar landshluta og aldur íbúanna.
Þar má sjá að á árunum 1998-2019 fækkaði íbúum á Vestfjörðum úr 8556 í 7063 á meðan landsmönnum fjölgaði umtalsvert.
Þegar skoðuð er aldurssamsetning íbúanna er ekki við því að búast að Vestfirðingum fjölgi á næst árum nema þá með flutningi fólks annars staðar að.
Árið 1998 voru íbúar á aldrinum
0-20 ára 3051 en voru í fyrra 1845
21-40 ára 2616 en voru í fyrra 1890
41-60 ára 1765 en voru í fyrra 1815
60+ ára 1124 en voru í fyrra 1513