Engar vísbendingar eru um að SARS-CoV-2 veiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum berist með matvælum skv. nýútgefnu áliti Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA).
EFSA bendir á að reynsla fyrri faraldra af völdum skyldra kórónaveira, s.s. SARS-CoV og MERS-CoV faraldrarnir, sýni að smit átti sér ekki stað með matvælum. Sem stendur bendir ekkert til þess að annað eigi við um þann faraldur sem nú geisar.
Stjórnvöld og vísindamenn um heim allan fylgjast náið með þróuninni og hefur ekki verið tilkynnt um smit með matvælum.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur gefið út ráðleggingar um meðhöndlun matvæla í varúðarskyni þar sem hvatt er til handþvottar, að hita kjöt í gegn og að forðast krossmengun milli eldaðra og hrárra matvæla.