Landhelgisgæslan nýtur mests trausts

Landhelgisgæslan er sú stofnun sem þjóðin ber mest traust til samkvæmt nýjum þjóðarpúlsi Gallup. Þetta er tíunda árið í röð, eða frá því Landhelgisgæslan var tekin inn í mælingar Gallup, sem stofnunin mælist með mest traust almennings.

Um níu af hverjum tíu sem taka afstöðu í könnuninni segjast bera mikið traust til Landhelgisgæslunnar.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir starfsfólk Landhelgisgæslunnar eiga allan heiðurinn af þessari góðu útkomu og að hún sé hvatning til að halda áfram á sömu braut.

,,Starfsfólk Landhelgisgæslunnar hefur staðið sig afburðavel við krefjandi aðstæður að undanförnu og það er augljóst að þjóðin kann vel að meta þá miklu fórnfýsi sem starfsmenn leggja á sig í þágu lands og þjóðar. Við munum, nú sem endranær, kappkosta að standa vörð um þetta fjöregg og halda áfram á sömu braut. Það eru einstök forréttindi að starfa með jafn öflugum hópi sem leggur hjarta og sál í störf sín.“

DEILA