Vegleysa innan vinnusóknarsvæða

Veðurfarið í vetur er farið að reyna á sálartetrið. Ó jú við getum alltaf dregið upp í minningunni þyngri vetur og meiri ófærð, lengri lokanir og þar með einangrun. Hvað erum við þá að kvarta? Við búum þó á Íslandi og eigum að þekkja þessar aðstæður.

En málið er að það eru aðrar aðstæður núna en voru fyrir aldarfjórðung. Þá var samfélagsgerðin önnur. Innan hvers byggðarlags var eitt samfélag. Íbúar sóttu sína vinnu innan þess, skóla, heilsugæslu og félagslíf. Ein góð norðanhríð sem stóð í viku setti ekki hversdagslífið úr skorðum, þótt aldrei væri gaddurinn velkominn og allir fögnuðu hækkandi sól sem nú.

Nú eru landfræðileg mörk byggðarlaga og samfélaga stærri.  Í dag eru vinnusóknarsvæðin á Vestfjörðum færri og þjónusta og verslun færð í stærri kjarnanna. Þetta gengur allt vel í þeim heimi sem samgöngur eru greiðar en í því árferði sem hefur ríkt síðustu þrjá mánuði veldur þetta meiri einangrun en ella.

Greiðar samgöngur

Grundvallarþörf þess samfélags sem við erum búin að hanna eru greiðar samgöngur. Kröfur um enn meiri samvinnu í samfélögum krefjast því greiðari og öruggari samgangna. Miklar samgöngubætur hafa orðið á Vestfjörðum,  sérstaklega á norðanverðu svæðinu og mikil aukning á vetrarþjónustu sl. áratugi en úrbóta er  enn þörf.

Jarðgöng og vegabætur

Nú höfum við þrenn jarðgöng á Vestfjörðum en þar á ekki  að láta staðar numið. Umferðaröryggi á veginum um Súðavíkurhlíð er ekki ásættanlegt í því umhverfi stórra vinnusóknarsvæða sem við búum við. Til þess að uppfylla umferðaröryggi á vegum frá Ísafirði til Súðavíkur hefur þurft að loka veginum oft í vetur vegna snjóflóðahættu.

 

Lokun á Súðavíkurhlíð frá 1. jan. 2020 Heimild: Vegagerðin á Ísafirði

 

Það er ljóst að það þarf að ráðast í jarðgangnaframkvæmdir milli Súðavíkur og Ísafjarðar til þess að  tryggja öryggi vegfarenda en hér að ofan eru aðeins taldar upp lokanir, oft getur verið óvissustig og snjóflóð fallið utan lokana en auk þess má búast við grjóthruni á hlíðinni.

Sömu sögu er að segja á Flateyrarvegi, þar er mikil snjóflóðahætta á köflum og þar þarf að útfæra og hanna mögulegar vegbætur til þess að tryggja betra öryggi.

Lokanir á Hvilftarströnd frá 1. jan. 2020

heimild: Vegagerðin á Ísafirði

 

Samgöngur á sunnanverðum Vestfjörðum

Við erum enn stödd á síðust öld ef við lítum til samgangna á sunnanverðum Vestfjörðum og þarf ekki að fjölyrða frekar um það. Þó horfir til betri tíma ef allt gengur fram sem horfir, bæði með staðfestar áætlanir í vegabótum í Gufudalssveitinni og Dýrafjarðargöngum og Dynjandisheiði. Samgöngur á milli byggðakjarna eru yfir fjallvegi sem eru erfiðir á veturna. Núverandi vegir eru engan veginn byggðir fyrir þá umferð sem þar er og hefur Bíldudalsvegur verið álitinn nær ónýtur. Þungaflutningar eru miklir og almenn umferð hefur aukist vegna atvinnu og þjónustu. Lokanir á vegum eru algengar yfir veturna bæði á milli byggðarlaganna þriggja og á Kleifarheiði á Barðastrandavegi. Þessar lokanir hafa mikil áhrif, enda er um eitt vinnusóknarsvæði að ræða.

Hugmyndir um jarðgöng milli byggðarkjarna þarf að fara að skoða af alvöru. Með tilliti til byggðaþróunar, daglegrar vinnusóknar og ekki síður vegna aukinnar umsvifa fiskeldis sem skila þjóðarbúinu tugi milljarða í útflutningstekjur þá þurfa samgöngur að vera skilvirkar, öruggar og heilsárs. Jarðgöng frá Patreksfirði yfir í Tálknafjörð yrðu rétt um 3.5 km. og myndu leysa af hólmi umferðamikinn og ónýtan veg um Mikladal. Fleiri jarðgöng eru möguleg og eiga vera á áætlun.

Samgöngur og áætlun.

Núverndi  tillaga að samgönguáætlun til fimm ára er öflug og gerir ráð fyrir samtals 205 milljörðum króna í samgöngur á láði, legi og lofti. Af því eru 154 milljarðar til vegagerðar vegna nýframkvæmda, viðhalds og þjónustu. Nýframkvæmdir vegna Dynjandisheiðar, Gufudalssveitar, Veiðileysiháls og um Hattardalsá eru rúmlega 13 milljarðar. Þessu ber að fagna og þegar þær verður orðnar að veruleika er stórum áföngum náð. En jafnframt þarf berjast fyrir auknum samgöngubótum og öflugum vetrarþjónustu innan vinnusóknarsvæða. Það er stór þáttur í að við getum byggt upp öflug nútíma og samkeppnishæf samfélög.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

 

 

 

 

 

 

DEILA